Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vilja eyrnamerkja 20% hlutdeildarlána landsbyggðinni

02.09.2020 - 14:11
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Meirihluti velferðarnefndar Alþingis vill eyrnamerkja 20 prósent hlutdeildarlána til húsnæðiskaupa á landsbyggðinni. Þannig vill nefndin stuðla að uppbyggingu húsnæðis utan höfuðborgarsvæðisins þar sem um þriðjungur þjóðarinnar býr. Nefndin vill líka að viðmiðunartekjur lántakanda hækki fyrir hvert barn fram að tvítugu óháð því hvort börnin séu með lögheimili skráð hjá lánsumsækjanda eða hinu foreldrinu.

Nefndin birti umsögn sína um frumvarp barna- og félagsmálaráðherra um hlutdeildarlán í gær. Lánunum er ætlað að auka möguleika láglaunafólks til að eignast eigið húsnæði.

Jafna stöðu forsjárforeldra og umgengnisforeldra

Samkvæmt frumvarpinu á fólk rétt á láni ef það er einstaklingur með tekjur að 7,56 milljónum eða sambýlisfólk með undir 10,56 milljónum. Launaviðmiðið hækkar samkvæmt frumvarpinu um 1.560 þúsund krónur fyrir hvert barn fram að tvítugu sem býr á heimili lántakanda. Meirihluti velferðarnefndar leggur til að þetta eigi við hvort sem börn sem búi á heimilinu eða séu á framfæri umsækjanda. Það þýðir að forsjárforeldri og umgengnisforeldri ættu að vera í sömu stöðu að þessu leyti óháð því hjá hvoru barnið hefur lögheimili.

Gagnrýnt hefur verið að launaviðmið fyrir lánin séu of þröng. Í breytingartillögum meirihluta nefndarinnar er lagt til að ráðherra geti með reglugerð kveðið á um undanþágur frá tekjumörkum vegna sérstakra aðstæðna umsækjenda vegna óvenjuhárrar framfærslubyrði sem hafi orðið til þess að hann gæti ekki safnað nægu eigin fé til kaupa á íbúðarhúsnæði.

Ekki bundið við nýjar íbúðir

Nefndin leggur einnig til rýmkun á því hvernig íbúðir megi kaupa. Samkvæmt frumvarpinu mátti aðeins lána til kaupa á nýjum hagkvæmum íbúðum. Nefndin leggur til að á landsbyggðinni megi lána til kaupa á hagkvæmum eldri íbúðum sem hafi fengið svo gagngerar endurbætur að jafna megi við ástand nýrrar íbúðar. Þetta rökstyður nefndin með því að minna hafi verið um uppbyggingu húsnæðis á landsbyggðinni vegna misvægis milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs.

Meirihluti velferðarnefndar leggur einnig til að 20 prósent hlutdeildarlána verði eyrnamerkt íbúðarkaupum á landsbyggðinni. Með þessu á að tryggja að ákveðið lágmark lánanna renni til landsbyggðarinnar ef heildarlánsframboð annar ekki eftirspurn. Samkvæmt frumvarpinu er óheimilt að veita lán umfram árlegt hámark sem kveðið er á um í fjárlögum þótt svo fólk uppfylli skilyrðin. Nefnarmeirihlutinn bætir við því ákvæði í frumvarpið að úthlutun fari fram sex sinnum á ári og að dregið skuli úr umsóknum ef þær hljóða upp á hærri heildarfjárhæð en fjárlög heimila.

Í frumvarpi ráðherra var gert kveðið á um að endurgreiða ætti hlutdeildarlán við sölu húsnæðis eða í síðasta lagi 25 árum eftir lánveitingu. Meirihlutinn leggur til að miðað verði við tíu ár í stað 25 ára en framlengja megi hlutdeildarlánið um fimm ár allt að þrisvar sinnum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.