Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Útlánsvextir til fyrirtækja magna niðursveifluna

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Niðursveiflan í hagkerfinu hefur magnast með því að útlánsvextir til fyrirtækja hafa ekki lækkað í takt við meginvexti Seðlabankans.

Þetta segir Ingólfur Bender aðalhagfræðingur Samtaka iðnaðarins í samtali við ViðskiptaMoggann í dag. Ingólfur telur að vaxtalækkanir Seðlabankans hafi skilað sér til heimila en ekki nema að litlu leyti til fyrirtækja.

Með því að halda vöxtum háum, hækka áhættuálag og hafna útlánum ýki bankar því niðursveifluna segir Ingólfur. Anna Hrefna Ingimundardóttir forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins segir nær allan fyrirtækjarekstur hafa orðið áhættusamari þegar kórónuveirufaraldurinn skall á.

Hún ályktar að vextir til fyrirtækja gætu jafnvel verið hærri en raun ber vitni ef ekki væri fyrir vaxtalækkanir Seðlabankans. Eins segir Anna Hrefna að fyrirtæki í vandræðum leiti frekar lánafyrirgreiðslu í bankakerfinu en þau sem betur standi. Það gæti að einhverju leyti skýrt hærri vexti á fyrirtækjalánum veittum að undanförnu.