Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Tónlistarfólk kallar eftir aðgerðum

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Tónlistarfólk kallar eftir aðgerðum

02.09.2020 - 19:15

Höfundar

Tónlistarfólk og samstarfsfólk þeirra kallar eftir aðgerðum nú þegar nánast allt starf liggur niðri. Í bótakerfinu sé ekki gert ráð fyrir vinnufyrirkomulagi eins og tíðkast í tónlistariðnaðinum. Lagt er til að farið verði að ráði Dana sem settu á laggirnar sérstakan bótasjóð fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga.

Tónlistarmenn og ýmsir aðrir hópar sem vinna með tónlistarmönnum eins og tónleikahaldarar, tæknimenn, tækjaleigur og bókunarskrifstofur, svo eitthvað sé nefnt, héldu fjarfund í dag þar sem fjallað var um stöðuna nú þegar samkomutakmarkanir eru í gildi. Þar var fjallað um nýlega skýrslu;  Áhrif COVID-19 á íslenskan tónlistariðnað, sem FÍH, Félag hljómplötuframleiðenda, STEF, Tónlistarborgin Reykjavík, ÚTÓN og Samtök flytjenda og hljómplötuframleiðenda létu gera.

„Við náttúrlega megum ekki vinna af því að það sem við vinnum við er dálítið bannað. Samkomur fyrir ákveðið marga í ákveðnum rýmum, það má ekki, þannig að þetta er auðvitað dálítið vonlaus staða fyrir okkur,“ segir Sigriður Thorlacius söngkona. 

Í skýrslunni er tillögum að aðgerðum skipt í nokkra flokka. Fyrst er neyðaraðstoð, þar sem fjallað er um atvinnuleysis- og hlutabætur, en fram kemur að tónlistarfólk fellur mjög illa að þeim úrræðum. Kallað er eftir úrræðum vegna tekjumissis og stuðningi við innlent tónleikahald. Síðan er fjallað um styðjandi aðgerðir eins og rekstrarráðgjöf og stuðning við nýsköpun, endurskoðun sjóða og listamannalaun, markaðsherferðir og stuðning við markaðsverkefni.

Hvað innviðina varðar er kallað eftir aukinni samvinnu innan íslensks tónlistariðnaðar og fræðslu fyrir tónlistarfólk og fyrirtæki. Síðan er það danska leiðin, en í Danmörku var stofnaður sérstakur bótasjóður fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga, þar með talið listafólk.

„Ég held að enginn sé að krefjast þess að við fáum að gera eitthvað sem aðrir fá ekki að gera,“ segir Sigríður. „Við erum ekki að krefjast þess að fá að halda tónleika á meðan ástandið er svona, af því það er svona fyrir okkur öll. Það sem við höfum kannski verið að benda á að margir hverjir hafa til að mynda bara ekki fengið atvinnuleysisbætur, það er eitt. Að það sé bara einhvern veginn greitt úr því að við getum sótt bætur.“