Novichok ræðst á taugakerfið
Novichok er heiti sem er notað yfir ákveðna tegund efnavopna sem þróuð voru og framleidd í Sovétríkjunum undir lok kalda stríðsins. Eitrið ræðst á taugakerfi líkamans. Rússneskir útsendarar reyndu að ráða Sergei Skripal og Yuliu dóttur hans af dögum fyrir tveimur árum og notuðu novichok í tilræðinu. Skripal var háttsettur leyniþjónustumaður í Rússlandi en starfaði jafnframt fyrir bresku leyniþjónustuna. Feðginin lifðu árásina af.
Einn helsti andstæðingur Pútíns
Alexei Navalny er einn helsti andstæðingur Vladimirs Pútíns, Rússlandsforseta. Hann veiktist hastarlega í flugi í síðasta mánuði og lenti vélin sem hann ferðaðist með í Omsk í Síberíu þar sem Navalny var lagður inn á gjörgæsludeild spítala. Læknar þar og rússnesk yfirvöld sögðu ekkert benda til þess að Navalny hefði verið byrlað eitur. Rússnesk yfirvöld heimiluðu að Navalny yrði fluttur á Charite-sjúkrahúsið í Berlín nokkrum dögum eftir að hann veiktist. Þar gáfu læknar honum mótefnið atrópín sem meðal annars er notað gegn novichok.
Enginn vafi á sekt rússneskra yfirvalda
Ivan Zhdanov, talsmaður samtaka Navalnys sem berjast gegn spillingu í Rússlandi, sagði á Twitter að enginn vafi léki á rússnesk yfirvöld hefðu byrlað Navalny eitur, engir aðrir hefðu aðgang að novichok.
Þjóðverjar fordæma harðlega
Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði síðdegis að sendiherra Rússlands í Berlín hefði verið kallaður á fund þýsku stjórnarinnar og krafinn skýringa á tilræðinu við Navalny. Hann sagði einnig að þýska stjórnin fordæmdi atburðina harðlega. Maas sagði einnig að Þjóðverjar teldu afar áríðandi að tilræðismennirnir fyndust og yrðu gerðir ábyrgir.