Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Navalny var byrlað novichok

02.09.2020 - 14:04
Alexei Navalny í göngu til minningar um Boris Nemtsov í febrúar í fyrra. Nemtsov var gagnrýninn á rússnesk stjórnvöld og var honum ráðinn bani árið 2015. - Mynd: Yuri Kochetkov / EPA
Þýsk yfirvöld segja engan vafa leika á að rússneska stjórnarandstæðingnum Alexei Navalny hafi verið byrlað eitrið novichok. Navalny liggur nú á sjúkrahúsi í Berlín og er haldið sofandi. Annegret Kramp-Karrenbauer, varnarmálaráðherra Þýskalands, sagði síðdegis að niðurstöður rannsókna staðfestu með óyggjandi hætti að Navalny hefði verið byrlað novichok.

Novichok ræðst á taugakerfið

Novichok er heiti sem er notað yfir ákveðna tegund efnavopna sem þróuð voru og framleidd í Sovétríkjunum undir lok kalda stríðsins. Eitrið ræðst á taugakerfi líkamans. Rússneskir útsendarar reyndu að ráða Sergei Skripal og Yuliu dóttur hans af dögum fyrir tveimur árum og notuðu novichok í tilræðinu. Skripal var háttsettur leyniþjónustumaður í Rússlandi en starfaði jafnframt fyrir bresku leyniþjónustuna. Feðginin lifðu árásina af.  

Einn helsti andstæðingur Pútíns

Alexei Navalny er einn helsti andstæðingur Vladimirs Pútíns, Rússlandsforseta. Hann veiktist hastarlega í flugi í síðasta mánuði og lenti vélin sem hann ferðaðist með í Omsk í Síberíu þar sem Navalny var lagður inn á gjörgæsludeild spítala. Læknar þar og rússnesk yfirvöld sögðu ekkert benda til þess að Navalny hefði verið byrlað eitur. Rússnesk yfirvöld heimiluðu að Navalny yrði fluttur á Charite-sjúkrahúsið í Berlín nokkrum dögum eftir að hann veiktist. Þar gáfu læknar honum mótefnið atrópín sem meðal annars er notað gegn novichok. 

Enginn vafi á sekt rússneskra yfirvalda

Ivan Zhdanov, talsmaður samtaka Navalnys sem berjast gegn spillingu í Rússlandi, sagði á Twitter að enginn vafi léki á rússnesk yfirvöld hefðu byrlað Navalny eitur, engir aðrir hefðu aðgang að novichok.

Þjóðverjar fordæma harðlega

Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, sagði síðdegis að sendiherra Rússlands í Berlín hefði verið kallaður á fund þýsku stjórnarinnar og krafinn skýringa á tilræðinu við Navalny. Hann sagði einnig að þýska stjórnin fordæmdi atburðina harðlega. Maas sagði einnig að Þjóðverjar teldu afar áríðandi að tilræðismennirnir fyndust og yrðu gerðir ábyrgir. 

 

 

 

epa08617744 Russian opposition activist Alexei Navalny arrives at Charite clinic in Berlin, Germany, 22 August 2020. Navalny was placed in an hospital in Omsk, Russia, after he felt bad on board of a plane on his way from Tomsk to Moscow. The flight was interrupted and after landing in Omsk Navalny was delivered to hospital with a suspicion on a toxic poisoning. The hospital management agreed on 21 August 2020 to transport Navalny to a German hospital for further treatment.  EPA-EFE/CLEMENS BILAN
 Mynd: EPA-EFE - EPA