Mikilvægt að konur haldi áfram að fara í skimanir

Hulda Hjálmarsdóttir -  Kraftur
 Mynd: Kraftur - Ljósmynd
Það er eðlilegt að upp hafi komið ótti og óöryggi hjá konum eftir að fréttir bárust af því að að minnsta kosti 30 konur hefðu fengið ranga niðurstöðu í skimun á leghálskrabbameini. Mikilvægt sé að þær konur, sem hafi farið í leghálsskimun, og vantreysti niðurstöðunum, leiti sér aðstoðar. Þetta segir Hulda Hjálmarsdóttir framkvæmdastjóri Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein.

Embætti landlæknis er með málið til rannsóknar, en það er talið mega rekja til mistaka starfsmanns hjá Krabbameinsfélaginu sem uppgötvuðust í sumar eftir að kona greindist með ólæknandi krabbamein. Fram hefur komið að nú sé verið að endurgreina um 6.000 sýni sem tekin voru árið 2018. 

„Eðlilega, þegar koma upp svona fregnir, þá getur komið upp ótti og óöryggi; get ég treyst þessu? Mér finnst gott að undirstrika það að þetta letji ekki konur til að mæta í skoðun; heldur akkúrat öfugt - að hvetja þær til að mæta  út af því að þetta skiptir svo gífurlega miklu máli.  Frá því að skimun hófst 1963 eftir leghálskrabbameinum hefur dánartíðni vegna þeirra lækkað um 83%,“ segir Hulda.

Gera sitt besta í stöðunni

Hún segir þau mistök sem áttu sér stað við greiningu umrædds sýnis hörmuleg.  „Það er ekkert hægt að skafa neitt af því. Eðlilega geta orðið mannleg mistök, því miður. En ég trúi því að Krabbameinsfélagið sé að gera allt sem í sínu valdi stendur til að kryfja þetta mál . Ég held að konur geti treyst því. Ég held að þau hafi ekki getað gert neitt öðruvísi eins og staðan er núna, En auðvitað væri óskandi ef staðan væri ekki svona. En það er því miður ekki  raunveruleikinn.“

Brýnt sé að konur, sem hafi farið í leghálsskimun á umræddu tímabili og efist nú um að þær hafi fengið rétta niðurstöðu, leiti sér aðstoðar. „Ég hvet konur sem eru að upplifa eitthvað slíkt og þurfa að fá svör eða tala við einhvern að tala við ráðgjafarþjónustu. Það getur verið hérna hjá Krafti eða Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins. Maður bara harmar þessi mistök. Maður getur engan veginn sett sig í spor þessarar konu og það er ekkert sem getur bætt þessa stöðu sem hún er komin í. “

 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi