
Kreppa blasir við Áströlum
Nú veldur kórónuveirufaraldurinn því að endir er bundinn á þriggja áratuga hagvaxtarskeið í landinu. Efnahagshrunið 2008 hafði ekki viðlíka áhrif í Ástralíu.
Ástralskir neytendur hafa dregið mjög saman kaup á vörum og þjónustu enda voru þeim talsverðar hömlur settar vegna viðbragða við útbreiðslu veirunnar.
Yfirvöld áætla nú að atvinnuleysi verði 9,3% í desember og að fjárlagahallinn nálgist tíunda hluta þjóðarframleiðslu fyrir mitt ár 2021.
Um það bil 10% færri vinnustundir voru lagðar að baki á öðrum ársfjórðungi 2020 en greiðslur opinberra bóta jukust um 40 af hundraði. Hvort tveggja telst vera met í Ástralíu.
Útflutningur á vörum dróst verulega saman eða um 18,4% en innflutningur minnkaði um 2,4%. Stjórnvöld hafa varið tugum milljóna dala í viðbrögð við afleiðingum faraldursins sem bættist við erfiðleika vegna mikilla þurrka og skógarelda í landinu.
Strangar reglur hafa verið settar sem banna almenningi að vera á ferðinni. Nýverið þurftu fimm milljón íbúar borgarinnar Melbourne að sæta útgöngubanni.
Nærri 26 þúsund hafa greinst með kórónuveiruna í Ástralíu og 663 hafa látist, langflest í og umhverfis Melbourne frá því í júlí.
Ástandið þar getur tafið spá ríkisstjórnarinnar um að bjartari tímar væru fram undan á þriðja fjórðungi ársins.