Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Finnst þær búa við falskt öryggi

02.09.2020 - 19:05
Tvær konur, sem fengu ranga greiningu á leghálskrabbameinssýni vegna mistaka starfsmanns Krabbameinsfélagsins, hafa leitað til lögmanns, til viðbótar við konu sem greindist með ólæknandi krabbamein í sumar, eftir að hafa fengið ranga greiningu áður. Önnur kvennanna er með krabbamein. 

Krabbameinsfélagið er að endurskoða um sex þúsund sýni eftir að frumubreytingar í leghálssýni konu fundust ekki við skoðun árið 2018, vegna mannlegra mistaka. Konan hefur nú greinst með ólæknandi krabbamein. Um þrjátíu konur hafa verið kallaðar aftur í leghálsskoðun þar sem sams konar mistök voru gerð við greiningu þeirra sýna. Tvær þeirra hafa leitað til lögmanns með mögulega málsókn í huga. Önnur þeirra er með krabbamein.
 
„Önnur þeirra er komin með krabbamein. Það liggur ekki alveg fyrir hvort það sé alveg sambærilegt þessu fyrsta máli en það eru ákveðin líkindi með því,“ segir Sævar Þór Jónsson lögmaður. „Og það auðvitað líka blasir við að fólki finnst það búa við ákveðið falskt öryggi þegar kemur að þessari leit hjá Krabbameinsfélaginu og fólk vill auðvitað fá skýr svör um að það sé verið að vinna þannig úr málum að þetta geti ekki gerst aftur,“ segir Sævar, en hann er einnig lögmaður konunnar sem greindist með ólæknandi krabbamein í sumar.

Óttast mistök við greiningu dóttur sinnar 

Móðir konu, sem lést úr leghálskrabbameini fyrir tæpum tveimur vikum, hyggst tilkynna andlátið til Landlæknis. Konan hét Reynheiður Þóra Guðmundsdóttir og var 35 ára móðir fjögurra og sjö ára barna. Hún fór í sýnatöku hjá Krabbameinsfélaginu í september 2018, en þar kom ekkert óeðlilegt í ljós. Í ágúst, tæpu ári síðar, var hún lögð inn með ólæknandi krabbamein og með æxli stærra en tennisbolta. Hún lést 22. ágúst síðastliðinn, og var borin til grafar á mánudag. Móðirin óttast að mistök hafi verið gerð við greiningu á sýni dóttur hennar, í ljósi þess hversu hratt henni hrakaði.

Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir Krabbameinsfélagsins, segir í samtali við fréttastofu að sýni Reynheiðar hafi verið endurskoðað þegar hún greindist með krabbamein í fyrra og ekkert óeðlilegt komið í ljós. Hann fullyrðir að þarna hafi ekki verið um sams konar mistök að ræða og í máli konunnar sem greindist með krabbamein í sumar.