Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Covid og kleinuhringsfyrirbærið

02.09.2020 - 17:00
Bretaland · COVID-19 · Erlent · London · Spegillinn
Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons
Á Covid-19 tímum glíma ýmsar stórborgir við kleinuhringsfyrirbærið: dauðar miðborgir en ný umsvif í öðrum hverfum. Í Bretlandi hefur ríkisstjórnin hvatt fólk til að fara aftur í vinnuna, líkt og það væri þegnskylda að bjarga miðborgum. Aðrir telja þetta enn eitt dæmi um að veirufaraldurinn ýtir undir þróun, sem var þegar hafin.

Líf í hverfum utan miðborga

Þegar það fóru að opna kaffihús í vesturbæ Reykjavíkur og víða, fyrir nokkrum árum, voru ákafar vangaveltur um hvort slíkt gæti yfirleitt borgað sig. Vildi fólk ekki heldur fara niður í bæ? Reynslan sýndi að nei, fólk var einmitt mjög ánægt að geta farið á kaffihús í hverfinu sínu.

Sama þróun hefur verið sýnileg erlendis í áratugi. Gamla skiptingin í miðbæi með öllu og svo úthverfin þar sem fólk gerir ekkert annað en að sofa, hefur verið að hverfa í Evrópu og Bandaríkjunum.

Margboðaður dauði verslanakeðja

Í Bretlandi sést það sama. Átta milljón manna höfuðborgin er samsett af hverfum, sem hafa sín einkenni: kvikmyndahús, leikhús og gallerí og svo veitingahús og búðir, oft sjálfstæðir staðir og ekki bara keðjur, sem miðbærinn er fullur af.

Verslanakeðjur einkenna vissulega aðalgötur í borgum og bæjum Bretlands. Og dauði keðjanna hefur líka verið marg boðaður. Netverslun ógnar til dæmis verslanakeðjum.

Veiran tæmdi miðbæi – og fólk hefur ekki snúið aftur

Ofan í þetta kemur svo veirufaraldurinn. Á svipstundu tæmdust miðbæir – og það  er áberandi í London. Skrifstofurnar þar tómar, heimavinna enn á fullu og ekki síst: engir ferðamenn.

Rumit Shah skrifaði ákall um hjálp til breska ríkisútvarpsins. Shah rekur 60 gjafavörubúðir í miðborg London og víðar, með 200 manns í vinnu. Allt gekk svo vel en nú ógnar veirufaraldurinn búðum Shahs. „Miðborgin er eins og draugaborg, önnur hverfi blómstra,“segir Shah.

Alveg rétt, miðborg London er eins og draugaborg en önnur hverfi blómstra. Á veirutímum er farið að tala um kleinuhringsfyrirbærið: dauður miðbær, líflegt allt í kring. Margir atvinnurekendur hafa fengið kærkominn veirubónus ef þeir reka fyrirtæki annars staðar en í miðju kleinuhringsins, hvort sem eru matstaðir eða búðir. En já, aðrir tapa, eins og Shah.

Umferð í nokkra daga í miðborginni, þegar búðir opnuðu, svo ekki meir

Undir lok júní þegar búðir í Bretlandi máttu opna aftur eftir al lokanir vegna veirufaraldursins, sást slangur af fólki í miðborginni í nokkra daga, síðan ekki söguna meir. Ástæðan er greinilega þessi að auk þess sem vantar ferðamenn þá er þessi dauðabragur á öllu af því fólk vinnur áfram að heiman.

Johnson í lok júlí: ekki ríkisstjórnarinnar að ákveða hvar fólk vinnur

Í lok júlí kynnti breska stjórnin næsta stig þess að opna þjóðfélagið aftur. Allir máttu nú nota almenningssamgöngur þó ráðið væru áfram að finna aðrar samgönguleiðir. Boris Johnson forsætisráðherra hvatti fólk til að fara nú í vinnuna. Það væri þó vissulega ekki ríkisstjórnarinnar að ákveða það og margir hefðu uppgötvað að það væri alveg hægt að afkasta miklu vinnandi að heiman.

Mikið rétt, bæði atvinnurekendur og launþegar hafa áttað sig á að það eru kostir við að vinna heima. Og fólk situr heima sem fastast.

Auglýsingaherferð til að fá fólk á vinnustaði

Ríkisstjórnin stefnir nú á auglýsingaherferð, ætlunin að hvetja fólk til að snúa til vinnu. Einn ráðherra hefur jafnvel viðrað að fólk, sem vill halda áfram að vinna að heiman, geti frekar átt á hættu að vera rekið.

Þau skilaboð verða reyndar ekki innifalin í herferð ríkisstjórnarinnar en ýmsir hafa þó stússað við þessi afskipti hennar. Það mætti næstum halda að það sé þegnskylda að ferðast í klukkutíma í vinnuna og kaupa samlokur við hliðina á vinnustaðnum.

Er verið að hræða fólk í vinnuna?

Bæði verkalýðsfélög og heilbrigðisstarfsfólk telja stjórnina vera að reyna hræða fólk í vinnuna þegar öll vinnutilhögun ætti einfaldlega að vera algjörlega undir atvinnurekendum og starfsfólki komið. Rétt eins og forsætisráðherra sagði í lok júlí: ekki í verkahring ríkisstjórnarinnar að segja fólki hvar það eigi að vinna.

Covid-19 ýtir undir breytingar sem voru hafnar

Breytingar í kjölfar Covid-19 faraldursins hafa gjarnan verið þessar að herða breytingar, sem þegar voru sýnilegir. Margt starfsfólk í vel launuðum störfum hafði þegar samið um að vinna að heiman einn eða tvo daga í viku. Breytingin nú er að miklu fleirum býðst þessi kostur, að vinna heima að hluta.

Flestir vilja sveigjanleika – en það hjálpar ekki miðborgum

Nýleg bresk könnun sýnir að 81 prósent aðspurðra vildi halda áfram að vinna að heiman, alla vega einn dag í viku. Þetta er ekki spurning um annaðhvort eða, margir kjósa sveigjanleika. En það hjálpar ekki miðborgunum.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir