Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tugir kvenna fengu ranga niðurstöðu úr leghálsskoðun

Úr umfjöllun Kveiks um krabbameinsskimun.
 Mynd: Kveikur - RÚV
Að minnsta kosti 30 konur fengu ranga niðurstöðu um frumubreytingar í leghálsskoðun hjá Krabbameinsfélaginu árið 2018. Málið er rakið til mistaka starfsmanns sem uppgötvuðust í sumar eftir að kona um fimmtugt greindist með ólæknandi krabbamein. Koma hefði mátt í veg fyrir það ef konan hefði fengið rétta niðurstöðu fyrir tveimur árum. Krabbameinsfélagið vinnur nú að því að endurskoða um 6.000 sýni.

Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Embætti landlæknis er með málið til rannsóknar, að því er fram kemur í fréttinni. Þar er haft eftir Ágústi Inga Ágústssyni, yfirlækni leitarsviðs Krabbameinsfélagsins, að tilfelli konunnar sem greindist með ólæknandi krabbamein sé það langalvarlegasta sem hafi komið upp í tengslum við mistökin. Fram kemur í fréttinni að konan ætli í skaðabótamál við félagið.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV