
Skopmyndir af Múhameð birtar í Charlie Hebdo á ný
Laurent Sourisseau, kallaður Riss, aðaleigandi og útgefandi Charlie Hebdo, segir í leiðara nýjasta tölublaðs tímaritsins að hann og starfsfólk ætli ekki að láta beygja sig og aldrei gefast upp. Þá segir enn fremur að nú sé rétti tíminn til að endurbirta teikningarnar af Múhameð, það sé beinlínis brýnt í ljósi þess að réttarhöldin séu að hefjast.
Danska blaðið Jyllandsposten birti árið 2005 skopmyndir af spámanninum og ollu þær víða miklu uppnámi. Þær voru endurbirtar ári síðar í Charlie Hebdo auk þess sem tímaritið birti eigin myndir. Tvívegis var ráðist á skrifstofur Charlie Hebdo eftir birtingu skopmyndanna.
Reynt var að kveikja þar í árið 2011 og var netárás gerð á tímaritið. Þann 7. janúar 2015 létu svo bræðurnir Chérif og Said Kouachi til skarar skríða og réðust vopnaðir inn í skrifstofur Charlie Hebdo og skutu fjölda starfsmanna. Þeir voru síðan drepnir eftir æðisgenginn flótta.
Þeir bræður áttu vitorðsmenn og verða fjórtán þeirra leiddir fyrir rétt á morgun, meðal annars menn sem tengdust árás á verslun gyðinga í París, en tengsl voru þar á milli.