Skila skýrslu um aðventustorminn í október

01.09.2020 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd: Ágúst Ólafsson - RÚV
Rannsóknarnefnd almannavarna, sem virkjuð var í fyrsta skipti í kjölfar fárviðrisins sem gekk yfir landið í desember 2019, lýkur við gerð skýrslu um viðbrögð viðbragðsaðila í október. Nefndin hefur fundað reglulega síðan hún tók til starfa en gagnaöflun hefur tekið tíma.

Rannsóknin er umfangsmikil enda mikill fjöldi viðbragðsaðila sem sinnti björgunaraðgerðum þá daga sem óveðrið geisaði.

Fyrstu niðurstöður í október

Herdís Sigurjónsdóttir, starfandi formaður nefndarinnar, segir í samtali við fréttastofu að nefndin stefni að því að skila fyrstu niðurstöðum til ráðherra í október. Verkefnið hafi tafist vegna kórónuveirufaraldursins en unnið hafi verið að því að safna saman áætlunum þeirra aðila sem beri ábyrgð á almannavörnum á hverju landsvæði.

„Við höfum reynt að nýta tímann vel og undirbúið þessa fyrstu rannsókn eins og best verður á kosið. Gagnaöflun hefur dregist vegna faraldursins, enda margir viðbragðsaðilar uppteknir við að sinna ástandinu og forvörnum.“

Rýnt í viðbragðsáætlanir

Herdís segir að þessi fyrsta rannsókn sé stór í sniðum, enda hafi veðurofsinn á aðventunni 2019 kallað á viðbrögð nánast um allt land. „Okkar verkefni er að tryggja að viðbragðsaðilar séu vakandi og viðbúnir þegar hættuástand skellur á og að verklagsreglur og gæðaskjöl séu til staðar þar sem á þarf að halda.“

„Við köllum eftir gögnum og upplýsingum frá sveitarfélögum, lögreglu, björgunarsveitum og almannavarnarnefndum og förum í saumana á áætlunum þessara aðila, möguleika þeirra til samhæfingar og metum getu kerfisins í heild til að bregðast við hættuástandi.“

Sjálfstæð nefnd og víðtækar heimildir

Dómsmálaráðherra kallaði nefndina saman í kjölfar óveðursins og hefur hún starfað eftir drögum að reglugerð sem hafa legið í samráðsgátt stjórnvalda frá því í lok árs 2019. Ákvæði um nefndina hafa verið í lögum um almannavarnir frá árinu 2008. 

Í lögunum kemur fram að nefndin starfi sjálfstætt og sé óháð stjórnvöldum og öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum. Verkefni hennar sé að rannsaka viðbrögð og áætlanir viðbragðsaðila að loknu hættuástandi og gera ábendingar um úrbætur.

Nefndin hefur fengið aðstöðu og fjármagn vegna þessarar fyrstu rannsóknar, en óvíst er hvort starfinu verði haldið áfram á næsta ári enda nefndin ekki á fjárlögum og því í höndum Alþingis að ákveða framhaldið.

 „Það er alltaf erfitt að spá fyrir um veðrið, en við vitum að slíkt fárveður getur komið aftur og því er mikilvægt að tryggja að þeir aðilar sem eiga að sinna viðbragði við hættuástandi séu tilbúnir þegar óveður skellur á,“ segir Herdís að lokum.

Sigurður Kaiser
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi