Ali Khamenei erkiklerkur. Mynd: EPA-EFE - SUPREME LEADER OFFICE
Ali Khamenei erkiklerkur, æðstur valdamanna í Íran, fordæmdi í morgun nýgert samkomulag um stjórnmálasamband og eðlileg samskipti milli Ísraels og Sameinuðu arabísku furstadæmanna.
Khamenei sagði á Twitter að með undirritun sinni hefðu ráðamenn í furstadæmunum svikið múslima um allan heim, Palestínu og önnur ríki Araba. Þessi svik myndu ekki viðgangast lengi.
Í gær lenti ísraelsk farþegaflugvél í fyrsta skipti á flugvellinum í Abu Dhabi, en með henni voru ísraelskir og bandarískir embættismenn þeirra á meðal Meir Ben-Shabbat, þjóðaröryggisráðgjafi Ísraelsstjórnar og Jared Kushner, tengdasonur og ráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta.