Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Mikill samdráttur í sölu á nýjum bílum

01.09.2020 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
581 nýr fólksbíll seldist hér á landi í ágúst, sem er 27,7% minna en í ágúst í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bílgreinasambandinu. Þar segir ennfremur að á fyrstu átta mánuðum ársins hafi 6.254 nýir fólksbílar verið seldir, eða 31,4% færri en á sama tímabili í fyrra.

Í tilkynningu Bílgreinasambandsins segir að þessi samdráttur helgist fyrst og fremst af færri nýjum bílaleigubílum, en fjöldi þeirra hefur dregist saman um 59,7% á milli ára á sama tíma og fjöldi bíla til almennra fyrirtækja hefur aðeins dregist saman um 15,3%. Þá hefur sala á nýjum bílum til einstaklinga aðeins dregist saman um 4,1%.

„Eins og bent hefur verið á áður þá má rekja samdráttinn á milli ára fyrst og fremst til heimsfaraldurs COVID-19, enda sjást mestu áhrifin þegar kemur að ferðaþjónustunni því mun færri bílaleigubílar hafa verið nýskráðir á fyrri helmingi ársins í ár miðað við sama tímabil síðasta árs. Hafa 1696 nýir bílaleigubílar verið skráðir núna á fyrstu 8 mánuðum ársins en þeir voru 4206 á sama tíma í fyrra, sem gerir 59,7% samdrátt,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að nýorkubílar, það er að segja bílar sem ganga t.d. fyrir rafmagni að hluta eða öllu leyti, hafi verið 64,4% allra nýrra bíla sem einstaklingar keyptu á fyrstu átta mánuðum ársins. Þetta hlutfall var 41,7% á sama tíma á síðasta ári.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV