Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hagstæðasta lausnin á Sundabraut „gerð ómöguleg“

Borgarstjórnarfundur
 Mynd: Vilhjálmur Þór GUðmundsson - Vilhjálmur Þór Guðmundsson
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, segir að hagstæðasta leið Sundabrautar hafi verið gerð ómöguleg vegna skipulags borgarinnar við Vogabyggð. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir hins vegar að sú leið hafi reynst umdeild, bæði á meðal íbúa í Laugardal og Grafarvogi, og því komi nú helst til greina að Sundabraut verði í jarðgöngum.

Þetta var á meðal þess sem kom fram í óundirbúnum fyrirspurnum, nýjum lið á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í dag.

Í góðum farvegi

Í fyrirspurn sinni til borgarstjóra sagði Eyþór meðal annars að á síðustu 23 árum, þar sem Samfylkingin hafi að langmestu leyti verið við stjórnartaumana, hafi ekkert gerst varðandi Sundabraut, annað en að þrengt hafi verið að henni með auknum tilkostnaði og fækkun hagstæðra valkosta fyrir legu hennar. Eitt ár sé liðið frá því að borgarstjóri skrifaði undir samgöngusáttmálann og ekkert hafi verið gert til að efna skyldur borgarinnar varðandi Sundabraut.

Dagur svaraði því til að Sundabraut væri ekki fjármögnuð innan ramma samgöngusáttmálans, þótt kveðið sé á um tengingu við hana í sáttmálanum. Gengið sé út frá því að Sundabraut verði einkaframkvæmd. Leiðin sem Eyþór nefndi hafi verið mjög umdeild á meðal íbúa bæði í Grafarvogi og Laugardal. Niðurstaðan hafi því orðið sú að best væri að Sundabraut verði í jarðgöngum, en einnig sé til skoðunar að byggja svokallaða lágbrú. Dagur sagði að málið væri í góðum farvegi.

Þá spurði Eyþór ennfremur hvernig borgarstjóri ætli að tryggja skyldur borgarinnar varðandi samgöngusáttmálann, sem kveður meðal annars á um flýtingu einstakra framkvæmda, svo sem gatnamót Arnarnesvegar og Breiðholtsbrautar og gatnamót við Bústaðaveg.

Dagur sagði að bæði þessi verkefni væru í farvegi. Verið væri að greina umferðarmál og lausnir og að gatnamótin við Arnarnesveg væru lengra komin í þeirri vinnu. Í næstu viku geti skipulags-og samgönguráð væntanlega fengið kynningu á valkostunum, og borgarráð svo í kjölfarið. Dagur sagði hins vegar vandasamt að finna góðar lausnir á þessum mannvirkjum.

Fjölgun eftirlitsmyndavéla

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata, beindi fyrirspurn sinni til Eyþórs Arnalds og spurði hvers vegna borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hefðu ekki stutt eigin tillögu um að fjölga eftirlitsmyndavélum í borginni, heldur setið hjá.

Eyþór svaraði því til að ólík sjónarmið hafi tekist á í flokknum í þessu máli. Það væri þó ekki svo einfalt að flokkurinn hafi ekki stutt eigin tillögu. Eyþór sagði að íbúar í úthverfum borgarinnar styðji fjölgun eftirlitsmyndavéla. Þá benti hann einnig á að þeim hafi þó fjölgað á síðustu árum, eftir að Píratar komust til valda í borginni, og spurði á móti um stefnu Pírata í málinu. Dóra Björt sagði þá að það væri ekki hlutverk stjórnmálamanna að hafa skoðun á því hvort myndavélum yrði fjölgað, heldur sérfræðinga á því sviði.

Á leið á götuna

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, spurði borgarstjóra hvers vegna biðlistar eftir félagslegu húsnæði væru eins langir og raun bæri vitni. Hún sagði spurninguna hafa komið frá 64 ára gamalli konu sem væri á leið á götuna.

Borgarstjóri sagði að eitt af lykilmálum hans og borgarstjórnar væri að fjölga félagslegum búsetuúrræðum. Frá því að núverandi borgarstjórn tók við hafi orðið mikil fækkun á biðlistum. Mest hafi fækkunin orðið á meðal barnafólks og það sé í takt við áherslur borgarstjórnar. Þá sé einnig búið að koma til móts við mismunandi hópa, svo sem eldri borgara og stúdenta.

Sanna sagði þá að fækkun á biðlistum væri vissulega staðreynd. Það breytti þó ekki þeirri staðreynd að biðlistar væru enn langir og að árið 2019 hafi meðalbiðtími eftir húsnæði verið 32 mánuðir.

Dagur tók undir þetta og sagði að það sé vissulega erfitt að bíða eftir öruggu húsnæði. Lögð sé mikil áhersla á að stytta biðlista. Meðalbiðtími segi þó ekki alla söguna, því þeir sem séu í erfiðustu stöðunni fái forgang.

Magalending

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, spurði borgarstjóra um Reykjavíkurflugvöll. Hún vitnaði til bréfaskrifta borgarstjóra og samgönguráðherra þar sem Dagur krafðist þess að fundin yrði ný staðsetning fyrir kennslu- og einkaflug án tafar, en það er nú starfrækt á Reykjavíkurflugvelli. Vigdís gagnrýndi borgarstjóra harðlega fyrir þessa kröfu og sagði meðal annars að það tæki mjög langan tíma að undirbúa flugvöll fyrir kennslu- og einkaflug, auk þess sem slíkur flugvöllur sé mjög dýr enda þyrfti hann að standast ákveðnar kröfur. Sagði Vigdís að Dagur væri með þessu að boða frekari lántökur og að hann hefði „magalent úti í skurði“ í málinu.

Dagur svaraði því til að það væri skýrt í samkomulagi sem gert var á milli ríkisins og Reykjavíkurborgar í október árið 2013, að innanríkisráðuneyti og Isavia skuli hafa forgöngu um að finna nýjan stað fyrir kennslu- og einkaflug i grennd við Reykjavík. Þá séu allir hagsmunaaðilar í flugi sammála um að það sé mikilvægt að fá nýjan flugvöll fyrir kennslu- og einkaflug. Loks sé rekstur flugskóla í mikilli óvissu. Dagur sagði að nú sé rétti tíminn til að ráðast í þetta verkefni, þegar slaki sé í efnahagslífinu. Einn möguleikinn væri að flytja starfsemina á nýjan flugvöll í Hvassahrauni.

Enginn niðurskurður

Loks spurði Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, um áhrif faraldursins á hvers konar þjónustu á vegum borgarinnar, svo sem velferðarþjónustu. Kolbrún sagði að áður en faraldurinn hafi skollið á hafi vandamálin þegar verið til staðar; langir biðlistar og uppsafnaður vandi. Kolbrún spurði Dag hvernig til standi að taka á þessu. 

Dagur sagði að það sé grundvallarspurning, hvernig sé rétt að bregðast við erfiðu efnahagsástandi. Hann sagði að ríkið og sveitarfélög verði að standa vörð um þjónustu við íbúa, í stað þess að ráðast í niðurskurð. Þá eigi að halda uppi fjárfestingarstigi og helst að bæta í.