Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Guðni segir að aðgengi eigi að trompa útlitið

01.09.2020 - 22:25
Mynd: RÚV / RÚV
Forseti Íslands tók í morgun í notkun tvær nýjar lyftur til þess að greiða aðgengi hreyfihamlaðra að Bessastöðum.

Fulltrúum Öryrkjabandalagsins, Sjálfsbjargar, MND-félagsins og fleirum var boðið af því tilefni, en lengi hafði verið bent á að aðgengi hreyfihamlaðra að Bessastöðum væri í ólestri. 

„Þótt Bessastaðastofa sé friðuð og það þurfi að taka tillit til þess, þá er hægt að hugsa í ýmiss konar lausnum, og þessi lyfta kemur að gagni en er ekki óprýði á nokkurn hátt, frekar eiginlega á hinn veginn finnst mér.

Og þar fyrir utan finnst mér að aðgengi eigi, ef svo ber undir, að trompa útlitshugsunina. Og brýnt að við höldum áfram á þessari braut,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, við tilefnið.

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands, sagði þetta gott framfaraskref og vonandi færu fleiri að taka sér þetta til fyrirmyndar.

„Ég held að það sé bara um sex prósent bygginga sem eru aðgengilegar í dag. Þrátt fyrir að hér sé í lögum að byggingar eiga að vera aðgengilegar öllum og algilda hönun skuli vera í fyrirrúmi, þá vantar svolítið upp á það að það sé í raun og veru þannig.

Við vonum og vinnum að því að þetta verði þannig að allir geti komist leiðar sinnar, hvort þeir séu hreyfihamlaðir eða ekki hreyfihamlaðir,“ sagði Þuríður Harpa Sigurðardóttir.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þuríður Harpa Sigurðardóttir í nýju lyftunni við Bessastaði.
andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV