Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Framlög til rannsóknasjóða aukin um helming

Mynd: RÚV / RÚV
Rannsóknasjóður, Tækniþróunarsjóður og Innviðasjóður verða efldir í sérstöku þriggja ára átaksverkefni. Framlög á næsta ári verða aukin um 50% miðað við fjárlög þessa árs. Forsætisráðherra segir mikilvægt, nú þegar þjóðin standi frammi fyrir efnahagslægð, að bregðast við bæði til skemmri og lengri tíma.

10 markmið

Vísinda- og tækniráð samþykkti í morgun Vísinda- og tæknistefnu fyrir árin 2020-2022 og ríkisstjórnin hefur lagt blessun sína yfir þau áform sem þar koma fram. Stefnan er endurskoðuð á tveggja ára fresti. Nú er kastljósinu beint að 10 markmiðum: Að efla samkeppnissjóði, að gerð verði úttekt á skatta- og styrkjakerfi rannsókna og nýsköpunar, að auka gæði háskólastarfs og nýsköpunar, að einfalda umsóknarferli um atvinnuleyfi fyrir sérfræðinga utan EES, að efla færni á vinnumarkaði, að opinn aðgangur verði að gögnum, að efla rannsóknir og nýsköpun í umhverfismálum og loks að efla vísindarannsóknir og nýsköpun á heilbrigðissviði.

Mikilvæg viðspyrna eftir faraldurinn

Vísinda- og tækniráð leggur áherslu á að vísindi og nýsköpun gegni lykilhlutverki í viðspyrnunni eftir faraldurinn. En hvers vegna? Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra er formaður ráðsins. Hún segir að með fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar í tengslum við faraldurinn og sem samþykkt var í mars hafi verið lögð áhersla á grunnrannsóknir og nýsköpun.

„Þarna erum við að fjárfesta í grunnrannsóknum, í þróun og nýsköpun. Hugsunin er auðvitað sú að við séum í senn að efla þennan þekkingargeira í íslensku samfélagi og auka þar með fjölbreytni til langs tíma í íslensku efnahagslífi. Fjölga þar stoðunum en líka að treysta þessa undirstöðu í okkar samfélagi, rannsóknar- og vísindastarf, sem er auðvitað mikilvægt í sjálfu sér.“

-En er þetta ekki í raun langhlaup? Þarf ekki spretthlaup í því ástandi sem við búum við núna?

„Jú, en ég held að áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir kalli á að við séum með fjölbreytt lið sem bæði getur tekið spretthlaup og haldið út lengri vegalengdir, jafnvel millivegalengdir líka,“ segir Katrín. Hún segir að í þessum málum birtist afurðirnar ekki á einni nóttu. Það sé líka mikilvægt þegar við stöðum frammi fyrir áskorunum eins og við stöndum frammi fyrir í efnahagsmálum. „Þar sem við erum með djúpa efnahagslægð sem ekki aðeins gengur yfir Ísland heldur í raun yfir öll Evrópuríki svo dæmi sé tekið, er í senn mikilvægt að bregðast við til skemmri tíma en líka að við söfnum í sarpinn til lengri tíma. Það hefur lengi verið talað um að við þurfum að efla þekkingargeirann. Það sé mikilvægt fyrir íslenskt efnahagslíf að hér séu fjölbreyttari stoðir. Þannig að við erum að leggja inn innistæðu til þess uppskera það síðar,“ segir Katrín.

Þriggja ára átaksverkefni

Meðal markmiða Vísinda- og tækniráðs er að efla samkeppnissjóðina. Í fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var í mars voru framlög til Rannsóknasjóðs, Tækniþróunarsjóðs og Innviðasjóðs aukin samanlagt um 1,6 milljarða króna. Nú hefur verið ákveðið að þeir verði efldir enn frekar í tímabundnu átaksverkefni sem stendur yfir næstu þrjú ár. Miðað við þau framlög sem gert var ráð fyrir í fjárlögum þessa árs eiga framlög til sjóðanna að hækka um 50 af hundraði. Framlög til Rannsóknasjóðs voru í fjárlögum tæpir 2 og hálfur milljarður sem þýðir að á næsta ári aukast þau um 1,2 milljarða króna.

Hlusta má á lengra viðtal við Katrínu hér fyrir ofan.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV