Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Framkvæmdin og útfærslan er algjörlega eftir“

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir það fagnaðarefni að niðurstaða sé komin í kjaradeilu þeirra við ríkið eftir tæpt eitt og hálft ár í kjarabaráttu. Gerðardómur birti úrskurð sinn um launalið sem vísað var til hans fyrr í sumar og úrskurðar að ríkið leggi Landspítala og öðrum heilbrigðisstofnunum til aukna fjármuni til að bæta kjör hjúkrunarfræðinga.

Til Landspítala verði lagðir 900 milljónir króna á ári út kjarasamningstímabilið og 200 milljónir til annarra stofnana í hlutfalli við þann meðalfjölda stöðugilda hjúkrunarfræðinga sem störfuðu á hverri stofnun fyrir sig í fyrra.  

„Að sjálfsögðu er ég ánægð að sjá að það eigi að reyna að bæta upp það sem þegar hefur verið borgað,“ segir Guðbjörg.  

Mikið hafi verið rætt um það í vor hvort hjúkrunarfræðingar myndu lækka í launum. „Því að við vitum að, eins og á Landspítalnum hafa verið núna í þrjú ár vissar borganir fyrir sértækar greiðslur til hjúkrunarfræðinga. Þannig að það er gott að sjá að það sé hugsað fyrir því að stofnuninni skuli bætt það upp. En hvort þetta sé að færa hjúkrunarfræðingum annað og meira eigum við eftir að sjá þegar lagst er yfir þennan útreikning og þegar við förum í rauninni í útfærsluna á þessu. Þetta er í rauninni úrskurðurinn sjálfur en framkvæmdin og útfærslan er algjörlega eftir.“

Guðbjörg segist ekkert hafa í höndunum sem segi hvað þetta þýði fyrir hvern og einn hjúkrunarfræðing. „Nú erum við að einhenda okkur í þá vinnu og eigum að hitta Landspítala strax á fimmtudaginn og ætlum þá að byrja í þessari vinnu, að fara í gegnum þetta.“

Framundan sé mikil vinna við endurgerð stofnanasamninga sem eigi að ljúka fyrir áramót. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV