Facebook hótar að loka á fréttamiðla í Ástralíu

01.09.2020 - 04:49
epa07960040 (FILE) - A close-up image showing the Facebook app on an iPhone in Kaarst, Germany, 08 November 2017 (reissued 30 October 2019). Facebook will release their 3rd quarter 2019 earnings report on 30 October 2019.  EPA-EFE/SASCHA STEINBACH
 Mynd: EPA
Facebook hótar að banna áströlskum notendum og fjölmiðlafyrirtækjum að deila fréttum ef hugmyndir stjórnvalda þar í landi ná fram að ganga. Stjórnvöld vilja knýja samfélagsmiðla um greiðslur til fjölmiðla fyrir að birta fréttir þeirra.

Facebook segir að Áströlum verði bannað að deila fréttum bæði að innlendum og erlendum miðlum á Facebook og Instagram. Fyrirtækið segir þetta ekki það sem það vilji gera, heldur það sem það þurfi að gera til þess að vernda fyrirtækið.

Frumvarpsdrög liggja á borði ástralskra stjórnvalda þar sem þess er krafist að Facebook og Google leggi sitt af mörkum til þess að greiða fréttastofum fyrir birtingu efnis af miðlum þeirra. Gerist netrisarnir brotlegir við lögin eiga þeir yfir höfði sér margra milljóna ástralíudala sekt, samkvæmt drögunum.

Frumvarpið byggt á misskilningi

Will Easton, stjórnandi Facebook í Eyjaálfu, segir frumvarpsdrögin byggð á misskilningi. Í stað þess að hjálpa fréttamiðlum landsins eigi frumvarpið eftir að skaða þau. Þá þykir honum furðulegt að Facebook verði neytt til þess að greiða fréttastofum sem sjálfar birta tengil á fréttir sínar á miðlinum. Eins er ekki tekið tillit til þeirra tekna sem Facebook færir fréttamiðlum með aukinni aðsókn á miðla þeirra í gegnum Facebook. Fyrstu fimm mánuði þessa árs smelltu notendur Facebook 2,3 milljarð sinnum á hlekki frá áströlskum fréttasíðum. Easton segir það jafngilda um 200 milljónum ástralíudala í tekjur fyrir fréttasíðurnar, jafnvirði um 20 milljarða króna.

Nýtur stuðnings fjölmiðla

Í stað þessa segir Easton að stjórnvöld setji Facebook í þá stöðu að fyrirtækið verði annað hvort alfarið að koma í veg fyrir deilingu ástralskra notenda á fréttum, eða að greiða fréttamiðlum ótilgreinda upphæð fyrir ótakmarkaðan fjölda frétta. Ekkert fyrirtæki geti látið bjóða sér slíkar aðstæður. 

Búist er við því að frumvarpið verði kynnt síðar á árinu. Að sögn AFP fréttastofunnar er mikill stuðningur við frumvarpið meðal ástralskra fréttamiðla.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi