30 konur aftur í skoðun vegna mannlegra mistaka

01.09.2020 - 21:36
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Krabbameinsfélagið hefur kallað um þrjátíu konur aftur í leghálsskoðun, vegna mannlegra mistaka við greiningu á Leitarstöð félagsins. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. Verið er að endurskoða um sex þúsund sýni eftir að frumubreytingar í leghálssýni konu fundust ekki við skoðun árið 2018. Konan hefur nú greinst með ólæknandi krabbamein.

Fréttastofa Stöðvar tvö og Vísis greindi fyrst frá málinu

Með ólæknandi krabbamein 

Konan, sem er um fimmtugt, á börn og varð amma í fyrsta sinn í vor. Krabbameinsæxlið uppgötvaðist í sumar. Sævar Þór Jónssson, lögmaður konunnar, segir að ef að meinið hefði fundist fyrr hefði verið hægt að grípa til aðgerðar, en vegna þess hversu langur tími er liðinn er það ekki lengur skurðtækt. Konan ætlar að höfða skaðabótamál. Krabbameinsfélagið hefur beðið konuna og aðstandendur hennar afsökunar á þessum hörmulegu mistökum.

Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir Krabbameinsfélagsins, staðfestir í samtali við fréttastofu að mannleg mistök starfsmanns hafi orðið til þess að konan fékk ranga greiningu árið 2018.

Endurskoða um sex þúsund sýni

Árlega eru skoðuð um 27 þúsund leghálssýni á frumurannsóknarstofu Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins. Ágúst Ingi segir að verið sé að fara yfir um sex þúsund sýni, sem talin er þörf á að endurskoða. Þau sýni eru frá 2018 og síðari hluta ársins 2017.

Búið er að fara yfir um helming sýnanna og um þrjátíu konur verið kallaðar inn í aðra skoðun. Ágúst Ingi segir að engin þeirra hafi greinst með krabbamein, en mögulega sé í einhverjum tilfellum um frumubreytingar að ræða. Endanleg niðurstaða liggi ekki fyrir.

Ekki er talin ástæða til að skoða nýrri sýni að svo stöddu, þar sem leitarstöðin tók í gagnið nýjan tækjabúnað í fyrra, sem greinir sýnin til viðbótar við greiningu starfsmanna.

Málið er til meðferðar hjá Embætti Landlæknis. Í svari frá embættinu við fyrirspurn fréttastofu segir að vegna alvarleika málsins hafi landlæknir haldið fund með fulltrúum frá Krabbameinsfélagi Íslands til að ganga úr skugga um að gripið hefði verið til allra viðeigandi ráðstafna, m.a. að farið yrði yfir hvort mögulegt gæti verið að fleiri sýni hefðu verið ranglega greind. Einnig hvort að gripið hefði verið til nauðsynlegra ráðstafana til að koma í veg fyrir eftir því sem kostur er að svona mistök geti orðið aftur. Þá vildi landlæknir tryggja að starfsfólk Krabbameinsfélagsins væri í sambandi við og hefði upplýst þann skjólstæðing sem varð fyrir þessu hörmulega atviki. Embættið tjáir sig að öðru leyti ekki um málið.

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi