Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Öll vinnan eftir þegar spítalavistinni er lokið“

Mynd með færslu
 Mynd: Sturla Skúlason Holm
William Thomas Möller segir í opinni færslu á Facebook frá upplifun sinni af því að veikjast af COVID-19 í byrjun ágúst. Honum var haldið sofandi í öndunarvél í fimm daga á gjörgæsludeild. Hann tekst nú á við streitu og þunglyndi eftir lífsreynsluna og brýnir fyrir fólki að halda áfram að fara varlega, sérstaklega kringum viðkvæma hópa.

Í færslunni segir William frá því að hann hafi fengið Covid og bakteríu lungnabólgu í hægra lungað í byrjun ágúst. Fjórða ágúst hafi hann verið orðinn svo veikur að hann hafi hóstað svo mikið að hann ældi vatni. Þegar konan hans kom heim úr vinnu klukkan ellefu um kvöldið hafi hann á minna en fjórum klukkustundum ælt upp nærri hálfri skúringarfötu af vatni. Hann hafi verið byrjaður að heyra ofheyrnir og sjá ofsjónir enda súrefnið í heilanum orðið lítið. 

Konan hans farið með hann á bráðamóttökuna um miðnætti og í ljós hafi komið að súrefnismettun væri alltof lítil, jafnvel með aðstoð súrefnis. Ekki hafi liðið á löngu áður en hann var svæfður og fluttur á gjörgæsludeild. „Ég var sofandi í fimm daga,“ segir hann í færslunni, sem má lesa hér. Hann segir að martraðir hafi sótt á hann, ofsjónir og ofsóknarbjálæði og eftir að hann fór á almenna deild hafi hann óttast að enda aftur á gjörgæslu. 

Hann segir fólk fagna fréttum af því þegar fólk losnar af gjörgæslu eða spítala. „En mín upplifun er sú að þetta er ógeðslega erfitt, það er öll vinnan eftir þegar spítalavistinni er lokið.“

Hann segist vonast til að geta hjálpað öðrum með því að deila reynslu sinni. Hann hafi unnið að því að byggja sig upp eftir að hann útskrifaðist en að um helgina hafi komið bakslag og hann þurft að leita aftur á bráðamóttökuna. Hann hafi fengið mikil einkenni í brjósti og hjarta, svimað og talið sig vera að fá hjartaáfall. Hann hafi farið í blóðprufur og rannsóknir á Landspítalanum og útskrifaður þegar ekkert hafi komið í ljós. Hann hafi leitað öðru sinni á spítalann um helgina og að loknu viðtali hafi niðurstaðan verið að hann væri með alvarleg einkenni streitu og þunglyndis eftir lífsreynsluna; að hafa verið svæfður, nærri dáinn, veruna á gjörgæslu og einmanaleikann sem fylgi því að eiga bara samskipti við fólk með grímur. 

William brýnir í færslunni fyrir fólki að halda áfram að gæta að sér, sérstaklega nærri viðkvæmum hópum. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV