
Halda ótrauð áfram þrátt fyrir veikindi Navalnys
Lyubov Sobol, lögfræðingur sem starfar hjá stofnun Navalnys sem berst gegn spillingu, segir í samtali við Moscow Times að hún muni ekki til þess að stofnunin hafi einhvern tíma ekki verið undir þrýstingi frá stjórnvöldum. Til að mynda hafi Navalny setið inni í samtals eitt ár á síðustu árum en starfsemin hafi haldið áfram. Ekki verði gerð breyting nú þó að Navalny liggi mikið veikur á sjúkrahúsi í Berlín. Þýskir læknar hafa sagt vísbendingar um að eitrað hafi verið fyrir honum. Hans fólk telur að stjórnvöld hafi staðið að baki verknaðinum.
Meðal þess sem er á dagskrá í héraðskosningunum í september er að kjósa átján héraðsstjóra. Navalny og félagar fengu ekki að bjóða sig fram til borgarþingsins í Moskvu í fyrra og hvöttu fólk þá til að kjósa eftir ákveðnu kerfi, sem miðar að því að kjósa þá sem líklegastir eru til að velta úr sessi fulltrúum Sameinaðs Rússlands, flokks Pútíns. Navalny var einmitt í Síberíu vegna kosninganna þegar hann varð skyndilega veikur. Þau ætla að beita sömu tækni í héraðskosningunum eftir tvær vikur.
„Við erum með stóran hóp af fólki með mikla reynslu sem hefur þekkingu á þessum málum og hvernig á að halda baráttunni fyrir lýðræði í Rússlandi áfram,“ segir Sobol. Þau ætli að halda ótrauð áfram. Mikil mótmæli hafa verið síðan í júlí í héraðinu Khaborvsk í austurhluta Rússlands, eftir að héraðsstjórinn, Sergei Furgal, var handtekinn, grunaður um að hafa fyrirskipað morð á kaupsýslumönnum árið 2005. Hann var kosinn í embætti árið 2018 eftir að hafa sigrað fulltrúa Sameinaðs Rússlands með miklum yfirburðum. Sobol segir að mótmælin þar, sem og í Hvíta-Rússlandi, sýni að þegar fólk hafi fengið nóg, krefjist það breytinga með einum eða öðrum hætti. Það þurfi ekki endilega leiðtoga til að skipuleggja mótmælin.
Navalny og félagar hafa síðustu ár birt fjölda myndbanda á YouTube þar sem þau greina frá niðurstöðum rannsókna sinna á spillingu tengdri æðstu valdhöfum í Rússlandi. Þau hafa einnig skipulagt mótmæli á götum úti. Navalny er oft kallaður helsti andstæðingur Pútíns forseta og hefur lögregla nokkrum sinnum gert húsleitir í húsakynnum stofnunarinnar. Eins og áður sagði hefur Navalny setið í fangelsi í yfir ár. Þá sat bróðir hans, Oleg Navalny, inni í þrjú og hálft ár fyrir fjárdrátt. Í sama máli hlaut Navalny þriggja ára skilorðsbundinn dóm. Þeir skutu málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu sem komst að þeirri niðurstöðu að dómurinn hafi ekki verið á rökum reistur og að Oleg hafi verið pólitískur fangi.
Vill tryggja að manntjónið hafi ekki verið til einskis
Eiginmaður Sobol var stunginn árið 2016 en lifði árásina af. Rússneski fjölmiðillinn Novaya Gazeta, greindi frá því að Yevgeny Prigozhin, hafi fyrirskipað árásina. Hann er náinn æðstu ráðamönnum og hefur verið bendlaður við afskipti af fosetakosningum í Bandaríkjunum árið 2016. Þeim ásökunum hefur hann staðfastlega neitað.
„Það eina sem ég hugsa um núna er að gera enn betur,“ segir Sobol í viðtalinu við Moscow Times. „Ég vil tryggja að allt þetta manntjón hafi ekki orðið tli einskis.“