Gitanas Nauseda, forseti Litáens. Mynd: EPA-EFE - AP POOL

Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.
Eystrasaltsríkin, Eistland, Lettland og Litáen, ætla síðar í dag að tilkynna formlega refsiaðgerðir gegn um það bil þrjátíu hvítrússneskum embættismönnum þar á meðal Alexander Lúkasjenko, forseta Hvíta-Rússlands. Verður þeim meinað að koma til landanna þriggja.
Gitanas Nauseda, forseti Litáens, greindi fréttamönnum frá þessu í morgun og sagði að þetta væri fyrsta skref refsiaðgerða, fleiri kynnu að bætast við síðar.
Áður sögðu stjórnvöld í Litáen að til stæði að refsa embættismönnum í Hvíta-Rússlandi sem bæru ábyrgð á kosningasvikum og ofbeldi gegn mótmælendum í landinu.
Mikil mótmæli hafa verið í Hvíta-Rússlandi eftir forsetakosningarnar 9. ágúst, en stjórnarandstæðingar segja brögðum hafa verið beitt til að tryggja endurkjör Lúkasjenkós.