Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Aldrei verið fleiri sem nota hlífðarbúnað vegna COVID

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Þeim hefur fjölgað umtalsvert sem nota hlífðarbúnað í ákveðnum aðstæðum vegna kórónuveirufaraldursins og hafa aldrei verið fleiri, samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallup. Alls sögðust 52 prósent aðspurðra nota grímu eða hanska í ákveðnum aðstæðum en 25 prósent voru sömu skoðunar þegar Gallup kannaði viðhorfið síðast.

Gallup kannaði viðhorf fólks til COVID-19 dagana 13. til 23.ágúst. Úrtakið var 1.638 manns, 18 ára og eldri, og var svarhlutfall 52,8 prósent. 

Á meðal þess sem kemur fram í nýjasta þjóðarpúlsi Gallup er að þeim fjölgar mikið sem forðast faðmlög og kossa vegna kórónuveirufaraldursins. Alls sögðust 86 prósent aðspurðra forðast faðmlög og kossa, en það er aukning um 14 prósentustig frá síðasta þjóðarpúlsi, sem gerður var um mánaðamót júlí og ágúst. 

Einnig var marktækur munur milli kannana á fjölda þeirra sem snerta andlit sitt sjaldnar vegna faraldursins. 43 prósent sögðust snerta andlit sitt sjaldnar í nýjasta þjóðarpúlsinum samanborið við 35 prósent í þeim síðasta. 

Þá hefur orðið aukning í fjölda þeirra sem segist frekar kaupa inn þannig að til séu umframbirgðir á heimilinu. Marktækur munur er milli kannana, 33 prósent segjast kaupa umframbirgðir en voru 28 prósent síðast. 

Í þjóðarpúlsinum kemur jafnframt fram að þeim fækki aftur sem telji of lítið gert úr heilsufarslegri hættu sem stafi af COVID-19 og þeim fjölgar sem telur of mikið gert úr hættunni.  Þá fækkar þeim sömuleiðis sem telja heilbrigðisyfirvöld gera of lítið til að bregðast við COVID-19 og þeim fjölgar sem telja þau vera að gera of mikið