Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

71 milljón í myndgreiningarbúnað á SAk

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Heilbrigðisráðherra hefur veitt Sjúkrahúsinu á Akureyri 71 milljón króna til endurnýjunar á myndgreiningarbúnaði sínum á þessu ári. Þá fær sjúkrahúsið heimild til að taka þátt í útboði með Landspítala til kaupa á nýju segulómtæki.

Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að SAk muni kaupa segulómtæki sem það hefur yfir að ráða, en er með á kaupleigu, og verði tækið uppfært. Þannig verði hægt að stytta rannsóknartíma í sumum rannsóknum og auka greiningarhæfni. Stefnt er að útboði á nýju segulómtæki með Landspítala árið 2023.

Auk þessa verður fjárheimildin nýtt til að kaupa einfaldara tölvusneiðmyndatæki, til viðbótar því sem fyrir er á sjúkrahúsinu. Með því eykst til muna öryggi á upptökusvæði SAk. „Tölvusneiðmyndatæki er nauðsynlegur búnaður þegar um alvarleg slys er að ræða og því mikið öryggismál að tryggja að tækjabúnaður til sneiðmyndatöku sé ávallt til reiðu,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV