Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þrisvar sinnum fleiri jákvæðir í seinni skimun

Mynd með færslu
Kári Stefánsson segir smitin sem greinast í seinni skimun vera fleiri en búist var við. Mynd: RÚV
Um þrisvar sinnum fleiri hafa greinst jákvæðir í seinni skimun eftir að aðgerðir á landamærum voru hertar, heldur en gerðu þegar seinni skimun á íbúum hér var fyrst tekin upp. Þetta segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Í frétt RÚV í gærkvöldi var haft eftir upplýsingafulltrúa almannavarna að engin þeirra sautjánþúsunda sem skimaðir hefðu verið á landamærunum hefðu greinst jákvæðir í seinni skimun.

Árangur landamæraaðgerða metinn eftir helgi

Þetta segir Kári vera rangt. Í gær voru tíu dagar frá því að farið var að skima alla komufarþega í tvisvar og er búið að skima innan við þriðjung hópsins tvisvar.

„Það vill svo til að það er búið að skima í seinni skimun í kringum 4.500 manns og það voru þrír jákvæðir,“ segir Kári og kveður það vera mun hærra hlutfall en búist var við.

Byggðu á niðurstöðum frá því í sumar

„Þetta er svona um þrisvar sinnum tíðara en við bjuggum við, segir hann. Þær hugmyndir hafi byggt á niðurstöðum seinni skimana sem farið var í á íbúum Íslands í sumar og var hlutfall þeirra sem þá greindust jákvæðir mun lægra en nú. Á því tímabili hafi einungis tveir af 8.000 greinst jákvæðir. Það séu um því um þrisvar sinnum fleiri sem hafi reynst smitaðir nú.

„Hvor um sig var þó með mjög mikið af veiru,“ bætir Kári við. „Þannig að hvor um sig hefði getað byrjað nýja bylgju af þessum faraldri eins og þá sem við erum að takast á við í dag.“

Spurður hvort hann sé sáttur við núverandi aðgerðir segir hann það ekki vera réttu lýsinguna. Full þörf sé þó fyrir þær.

„Ég er ekkert sáttur við það að ferðaþjónustan sé lömuð, vegna þess að ég held að hún sé mikilvæg atvinnugrein íslenskri þjóð,“ segir Kári. „En bara eins og stendur, þá er allt of mikið annað sem er sett í hættu með því að hleypa ferðamönnum með minni hindrunum inn í landið.“