Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Staða sveitarfélaganna gríðarlega misjöfn

Mynd með færslu
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra. Hann segir sveitarfélögin á heildina litið treysta sér til að ganga á eigið fé sitt að einum þriðja. Mynd: RÚV
Skýrsla starfshóps um áhrif COVID-19 á fjármál sveitarfélaga sýnir svart á hvítu að áhrif kórónuveirufaraldursins eru umtalsverð. Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra í samtali við fréttastofu.

Í skýrslunni kemur fram að búist sé við að neikvæð áhrif á fjárhagsstöðu sveitarfélaganna nemi alls rúmlega 33 milljörðum króna, sem er um 8,5 prósent af heildarútgjöldum þeirra í fyrra. Þá áætlar starfshópurinn að útsvarstekjur sveitarfélaganna, sem er stærsti tekjustofn þeirra, verði tíu milljörðum krónum lægri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlunum.

Staða sveitarfélaganna er hins vegar gríðarlega misjöfn.

Sigurður Ingi segir að á heildina litið treysti þau sér til að ganga á eigin fé að einum þriðja. „Restina þurfa þau að fjármagna með lántöku,“ bætir hann við. Ekki geti þau þó öll sveitarfélög gert slíkt þar sem sum séu bæði með neikvætt sjóðsstreymi og hátt skuldahlutfalli og geti litlu við sig bætt.

„Staðan er gríðarlega mismunandi milli sveitarfélaga. Sum þeirra munu, alveg eins og ríkið og ríkissjóður komast í gegnum þessa tímabundnu erfiðleika með því að taka lán en önnur þurfa á einhverjum viðbótar stuðningi að halda,“ segir ráðherra.

Oddvitar ríkisstjórnarinnar munu á næstunni funda með Sambandi íslenskra sveitarfélaga og segir Sigurður Ingi að þar verði greint betur hvort einhver sveitarfélög þurfi á aukinni aðstoð að halda.