Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Olíumengun í Siglufjarðarhöfn

30.08.2020 - 13:15
Olía lak úr skipi við Siglufjarðarhöfn 30. ágúst 2020. 2-300 lítrar af olíu fóru í höfnina en slökkvilið dældi megninu upp og dældi hreinsiefni yfir flekkina sem eftir voru.
 Mynd: Ingvar Erlingsson
Nokkur olíumengun er í Siglufjarðarhöfn og fjörum í kringum bæinn.

Óhappið varð þegar verið var að dæla dísilolíu á geyma fiskiskips í Siglufjarðarhöfn. Kjartan Ólafsson, hafnarvörður, segir mistök við dælinguna hafi orðið til þess að olía streymdi upp úr öndunarröri á tanknum og í skipið. Lensidælur skipsins hafi síðan dælt olíunni í höfnina.

Slökkvilið Fjallabyggðar var kallað til og lagði flotgirðingu umhverfis olíuna í sjónum og dældi hreinsiefnum þar yfir. Ámundi Gunnarsson, slökkviliðsstjóri, giskar á að 2-300 lítrar af olíu hafi farið í sjóinn.

Ekki virðist óhappið hafa valdið skaða á dýra- og fuglalífi að sögn Ámunda. Málið verður tilkynnt til Umhverfisstofnunar. Hann segir slökkviliðið hafa gert tvær atrennur við hreinsunina og tekist að ná allri olíunni upp. Ámundi segir þegar hafa dregið úr olíulykt við höfnina en blankalogn er á Siglufirði og þá sé lyktin lengur að hverfa.