Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Áfall fyrir okkar samfélag“

30.08.2020 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir uppsagnir 133 starfsmanna ISAVIA áfall fyrir bæinn. Starfsfólkinu var sagt upp á föstudag en í lok mars sagði fyrirtækið upp 101 starfsmanni. Flestir þeirra sem misstu vinnuna fyrir helgi búa á Suðurnesjum. 

„Þetta eru auðvitað mikil vonbrigði með stöðuna almennt og þetta er áfall fyrir okkar samfélag hér,“ segir Kjartan. 

Atvinnuleysi hefur aukist til muna á Suðurnesjum og var nærri tuttugu prósentum í sumar. Talsvert hefur verið um stórar uppsagnir á svæðinu á síðustu misserum. 

Kjartan Már vonar að þeir sem misstu vinnuna á föstudag finni sér störf á nýjum vettvangi, en hann óttast að það verði enginn hægðarleikur. Skert starfsemi flugvallarins hefur mikil áhrif á atvinnulífið á Suðurnesjum. 

„40 prósent af öllum efnahagsumsvifum beint eða óbeint koma frá flugvellinum. Meðan hann er lokaður segir það sig sjálft að staðan er mjög alvarleg og margir atvinnulausir. Það er bara mjög snúið,“ segir hann. 

Tala fyrir mildari aðgerðum

Kjartan segist ekki finna fyrir auknum brottflutningi frá Reykjanesbæ eins og er. Miðað við ástandið núna megi þó búast við að einhverjir flytji á brott til þess að leita tækifæra annars staðar. En eru einhverjar lausnir í sjónmáli?

„Það eru örugglega einhverjar lausnir en til skamms tíma væri best fyrir okkur ef flugvöllurinn væri opinn og fólk gæti fengið vinnu. Og að þeir sem stýra því af hálfu ríkisvaldsins færu í mildari aðgerðir. Það eru nú margir að tala fyrir því núna, við þar á meðal. Okkur finnst fullharkalegt að senda alla sem koma til landsins í sóttkví,“ segir Kjartan. Til skemmri tíma sé hins vegar mikilvægt að styðja þá sem eru án atvinnu, til dæmis með því að búa til virkniúrræði. 

„Þetta er verkefnið núna fyrir okkar samfélag, við höfum tekið dýfur og lent í áföllum áður og við vinnum okkur út úr þessu,“ segir Kjartan að lokum.