Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Stýrihópi ætlað að móta starfsemi nýs sjúkrahúss

Mynd með færslu
Unnur Brá Konráðsdóttir Mynd: RÚV
Nýskipuðum stýrihópi um nýjan Landspítala er ætlað að hafa yfirsýn um öll verkefni tengd sjúkrahúsinu.

Heilbrigðisráðherra skipaði stýrihópinn á þriðjudag til tveggja ára en ákvörðun um að skipa slíkan hóp var tekin í maí í fyrra. Í hópnum sem ber ábyrgð gagnvart heilbrigðisráðuneytinu og fjármála- og efnahagsráðuneyti, sitja fimm manns.

Formaður stýrihópsins er Unnur Brá Konráðdóttir. Ásta Valdimarsdóttir er fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins og Guðmundur Árnason kemur úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Páll Matthíasson forstjóri Landspítala og Gunnar Guðni Tómasson frá Landsvirkjun sitja sömuleiðis í stýrihópnum.

Stýrihópnum er ætlað að móta stefnu, annast yfirstjórn og samhæfingu og veita ráð varðandi hlutverk spítalans í nýju starfsumhverfi. Unnur Brá Konráðsdóttir segir að nauðsynlegt hafi verið að skipa sérstakan stýrihóp til að annast þetta afar umfangsmikla verkefni, yfirsýn yfir alla uppbygginguna sé brýn.

Eitt helsta hlutverk stýrihópsins sé að tryggja að framkvæmdin lúti áherslum stjórnvalda. Hún segir verkefnin allt frá því að skilgreina hlutverk spítalans og yfir í það að hann taki til starfa í nýjum innviðum og nýju umhverfi.

Unnur Brá segir jafnframt afar mikilvægt að vel takist til við þessa stærstu verklegu framkvæmd Íslandssögunnar.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV