Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sigurður Ingi: Sundabraut kallar á 2.000 störf

Sigurður Ingi í kvöldfréttum 2. ágúst 2020 um HUAWEI
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, segist taka undir orð seðlabankastjóra. Mynd: RÚV
Gerð Sundabrautar mun kalla á 2.000 störf til viðbótar segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í gær að honum þætti „alveg stórundarlegt og ámælisvert að Sundabraut hafi ekki verið byggð miðað við þá umferð sem er í bænum“. Vandinn við innviðafjárfestingar sem þessa væri gjarnan tæknilegur en ekki peningalegur og fælist í því að það tæki langan tíma að undirbúa þær. „Við getum hæglega fjármagnað þetta,“ sagði hann.

Sigurður Ingi segist í samtali við fréttastofu taka undir orð seðlabanakstjóra.

„Ég hef verið alveg sammála honum og tel að þetta sé ein af þeim mikilvægu aðgerðum sem þarf að ráðast í til að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu og hef þess vegna haft þetta á dagskrá allt kjörtímabilið,“ segir hann.

Sigurður Ingi bætir við að starfshópur ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu sé nú með málið til meðferðar og eftir að hann skili skýrslu sinni í október og þá sjáist betur hvar málið sé statt. „Í kjölfarið verður vonandi hægt að ráðast í nauðsynlega skipulagsvinnu og samhliða eða í framhaldi að taka nýjar ákvarðanir um framkvæmdir.“

Spurður hvort stjórnvöld ættu ekki að huga að slíkum samgöngubótum sem hluta af innviðauppbyggingu á tímum kórónuveirufaraldurs minnir Sigurður Ingi á að stjórnvöld séu með í gangi samgönguverkefni upp á 900 milljarða á næstu 15 árum. „Við höfum aldrei gert annað eins í samgöngumálum,“ segir hann.

„Sundabrautin ein og sér mun kalla á 2.000 viðbótarstörf á næstunni þannig að það er mjög skynsamlegt að fara í það akkúrat núna.“