Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Mikilvægt að ná heildstætt utan um matarsóun

Mynd: RÚV / RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra vonast til að geta búið til hvata til að minnka úrgang og matarsóun í vetur. Markmiðið er að draga úr matarsóun um helming á næstu tíu árum.

Frumvarp umhverfisráðherra um tillögur að aðgerðum gegn matarsóun hefur verið í samráðsgátt stjórnvalda í sumar.

Guðmundur Ingi segir aðgerðir undanfarinna ára gegn matarsóun ekki hafa skilað sér nægilega vel.

„Þannig ég held að það sé mikilvægt að við náum heildstætt utan um þetta núna og fylgjum tillögunum vel eftir,“ segir hann.

Þetta segir ráðherra til að mynda mega gera með mælingum á því hvernig til takist. Tíu af tillögunum eru á ábyrgð atvinnulífsins og tuttugu og fjórar á hendi stjórnvalda. Verið er að horfa til hvata - bæði gagnvart atvinnulífi og neytendum.

„Þá erum við fyrst og fremst að hugsa um breytta gjaldheimtu þegar kemur að úrgangi,“ segir hann. „Að þú borgir minna eftir því sem þú hendir minna er eitthvað sem við erum að vinna að í tengslum við breytingar á úrgangslöggjöfinni, ég vonast til að það komi fram núna í vetur.“

Þá sé hægt að umbuna fyrirtækjum sem fari í matargjafir með afslætti af opinberum gjöldum.

Á næstu tíu árum er markmiðið að minnka matarsóun um helming. Stjórnvöld skoða nú með hvaða hætti verkefnið verður fjármagnað.

Spurður hvort þetta séu raunhæf markmið, svarar Guðmundur Ingi því til að alþjóðasamfélagið hafi sett sér þetta markmið.

Ísland sé hins vegar að að ganga örlítið lengra með því að láta þetta ganga yfir alla virðiskeðjuna. „Það er mat starfshópsins að við ættum að geta gert þetta og ég ætla ekki að véfengja það,“ segir hann.