Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fimmta hver kona á Suðurnesjum atvinnulaus

Mynd með færslu
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. Mynd: RÚV
Framlenging tekjutengingar atvinnuleysisbóta og hlutabótaleiðar eru af hinu góða. Það bætir hins vegar ekki stöðu þeirra sem verst standa, sagði Oddný Harðardóttir þingmaður Samfylkingarinnar í þættinum Vikulokunum á Rás 1 í morgun og kvað ástandið í sinni heimabyggð grafalvarlegt.

Sagði Oddný, að auk þeirra sem fengju framlengingu tekjutengdra bóta þá væru 12.000 manns á grunnatvinnuleysisbótum og stjórnvöld séu ekki að sinna þessum hópi nógu vel.

„Vandinn er sá að þeir sem verst standa eru skildir eftir og þeir eru 12.000,“ sagði hún. „Það voru 12.000 manns að fá þessar grunnatvinnuleysisbætur í ágúst.“ Áður hafði hún bent á að enginn lifði lengi á 290.000 krónum fyrir skatt.

Ólafur Þór Gunnarsson, þingmaður VG, samsinnti því að enginn lifði lengi á þeirri fjárhæð, en sagði flesta þeirra sem misstu vinnu vegna kóronuveirufaraldusins vera enn á tekjutengdum bótum. Þær hafi stjórnvöld nú framlengt sem ætti að framfleyta fólki fram á næsta vor. Vinnu við endurskoðun aðgerða sé hins vegar hvergi nærri lokið.

Oddný sagði það skyldu stjórnmálamanna að koma í veg fyrir að hér skapist neyð og fátækt á þúsundum heimila.

„Á mínu heimasvæði er grafalvarlegt ástand,“ sagði Oddný. „Þar er ein af hverjum fimm konum atvinnulaus og atvinnuleysi í heild í júli var 16,5% á Suðurnesjum og mér finnst þetta ekki hreyfa nægilega vel við stjórnvöldum.“

Skellurinn byrjaði fyrr á Suðurnesjum

Þáttastjórnandinn Anna Kristín Jónsdóttir rifjaði upp að Suðurnesin hafi verið eitt þeirra sveitarfélaga fóru illa út úr hruninu. Það hafi hins vegar risið hratt aftur, ekki hvað síst fyrir tilstilli aukins ferðamannafjölda.

Kórónuveirufaraldurinn og það frost sem hafi orðið í ferðaþjónustunni í kjölfarið hafi svo aftur komið illa niður á íbúum Suðurnesja. Nú síðast í gær misstu 133 starfsmenn Isavia vinnuna.

„Það var auðvitað ferðaþjónustan sem ýtti okkur hratt upp og við tökum skellinn og hann byrjaði hjá okkur fyrr en í öðrum landshlutum og þegar COVID skall á þá var voru rúmlega 5.000 manns atvinnulausir. Þetta fólk var í atvinnuleit og það er enga atvinnu að fá og þú minnist á Isavia. Það er alltaf bara að bætast í hópinn og það er að fækka störfum,“ sagði Oddný.