Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Er poppprinsessan fangi í sínum eigin kastala?

29.08.2020 - 07:30
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Er Britney Spears fangi föður síns? Þessu trúa þau sem fylgja #FreeBritney-hreyfingunni. Í tólf ár hefur þessi heimsfræga tónlistarkona, sem er oft kölluð prinsessa poppsins, ekki haft yfirráð yfir fjármálum sínum né öðrum þáttum í eigin lífi. Faðir hennar hefur allan þennan tíma verið lögráðamaður hennar og nýjustu fregnir herma að hún vilji binda enda á það fyrirkomulag.

Að öllum líkindum manst þú lesandi góður vel eftir laginu ...Baby One More Time, og kannski myndbandinu líka. Þar er Britney Spears, ekki orðin sautján ára, dansandi um á skólagangi, í skólabúningi með tvær fléttur og bleikar slaufur í hárinu.

...Baby One More er hennar fyrsta smáskífa. Hún kom út fyrir tæpum 22 árum, í október 1998. Fljótlega varð þessa sautján ára stúlka frá Louisiana í Bandaríkjunum heimsfræg. Fyrsta lagið hennar trónaði á toppi vinsældarlista í minnst átján löndum og er ein af mest seldu smáskífum í heimi, seldist í yfir tíu milljón eintökum. Og þetta var svo sannarlega enginn einsmellungur, sem er víst íslenska þýðingin á hugtakinu one hit wonder.

Hver man ekki eftir rauða, níðþrönga latex-samfestingnum sem Britney Spears klæddist í myndbandi við lagið Oops!...I did it again, úps ég gerði það aftur, titillagið á annarri breiðskífu hennar sem fékk ekki síður góðar viðtökur. Tvær fyrstu breiðskífurnar hennar eru á meðal þeirra mest seldu í heimi. Árið 2000 var Britney Spears orðin sá táningur - þá nítján ára - sem hafði selt mest af tónlist í sögunni. Og tvisvar var hún efst á lista Forbes yfir áhrifamestu stjörnur heims.

Stjörnuhrap skærustu stjörnunnar í poppheiminum 

Britney Spears er sem sagt fyrir löngu orðin göðsögn í poppheiminum og hlaut heiðursnafnbótina poppprinsessan - það er auðvitað Madonna sem er drottningin. Það tæki óratíma að þylja upp öll verðlaunin sem Britney hefur verið tilnefnd til eða hreppt. Hún hefur selt nærri 150 milljón plötur um allan heim. Fyrr á þessu ári tók tímaritið Rolling Stone saman lista yfir 100 bestu smáskífur sem voru frumraun tónlistarfólks.

Hver haldið þið að tróni þar á toppnum? Það eru ekki Bítlarnir með lagið Love Me Do. Ekki heldur hljómsveitin Radiohead með lagið Creep. Það er okkar kona sem á vinninginn.

En það er ekki alltaf tekið út með sældinni að vera poppprinsessan Britney.

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - Youtube
Ljósmyndarar fylgdu Britney um hvert fótmál - líka þegar hún var orðin fárveik.

Freyr Gígja Gunnarson fréttamaður er sérfræðingur fréttastofunnar í skemmtanaiðnaðnum og fréttum frá Hollywood. Hann man vel eftir því þegar tók að halla undan fæti hjá Britney. „Þetta sem hefur verið kallað meltdown, þar sem hún brotnar algjörlega niður, tengja flestir við þessar myndir af henni þar sem hún rakar af sér hárið eftir að hafa gengið út af meðferðarstofnun árið 2007. En svo þegar maður fer að rifja þetta upp betur, þá eru ótrúlega margar vísbendingar um að það hafi farið að halla undan fæti hjá henni mun fyrr,“ segir Freyr Gígja. Sumir halda því fram að upphafið megi rekja til þess þegar æskuástin, tónlistarmaðurinn Justin Timberlake, hætti með henni. 

„Og svona frá 2002 þá fer að bera á hegðun sem að er kannski í algjöru ósamræmi við þessa ímynd sem hún hafði selt heiminum. Hún giftist einhverjum æskuvini í Las Vegas 2004. Umboðsmaðurinn grípur í taumana og lætur ógilda hjónabandið 55 klukkustundum seinna. Svo gengur hún náttúrulega í hjónaband með Kevin Federline dansara. Aðdáendurnir hata hann. Hann var uppnefndur og kallaður öllum illum nöfnum af aðdáendunum. Hún eignast með honum tvö börn á mjög skömmum tíma,“ segir Freyr Gígja. 

Á þessum tíma getur Britney Spears sig hvergi hreyft nema ljósmyndarar fylgi henni hvert fótmál, hún lýsir því í viðtölum hvernig þyrlur fljúga nánast hvern einasta dag yfir heimili hennar í von um að ná góðu skoti af henni, eiginmanninum eða tveimur kornungum sonum þeirra. Í nóvember 2006 skilur hún við Federline, þá tæplega 26 ára. „Þau skilja stuttu eftir að þau eignast annað barnið og þetta breytist í einhvern hvirfilbyl. Hann sækir um forræði yfir börnunum af mjög skiljanlegum ástæðum því að hún virðist bara halda sér gangandi á viskíi og kelloggs og sígarettum og eiturlyfjum og er að taka kókaín fyrir framan börnin. Svo birtar þessar myndir af henni þar sem hún gengur út af meðferðarstofnun inn á hárgreiðslustofu og rakar af sér allt hárið,“ segir Freyr Gígja. 

Fárveik manneskja verður söluefni

Freyr Gígja minnist þess þegar Britney kom fram á MTV-tónlistarhátíðinni 2007, sá flutningur er líklega hennar versti. „Það er bara eitt það sorglegasta sem maður hefur séð. Ótrúlega hæfileikaríka manneskju sem hafði náttúrulega verið alin upp í þetta hlutverk frá þriggja ára aldri. Foreldrarnir voru bara búnir að ákveða það að hún ætti að verða stjarna. Þau leyndu skilnaði sínum í sex ár, þau óttuðust að það myndi hafa áhrif á hennar ímynd.“ 

epa01157878 US singer Britney Spears (driving) as she leaves the Los Angeles Superior Court, after her hearing as part of her ongoing child custody case, Los Angeles, California, USA, 26 October 2007.  EPA/ANDREW GOMBERT
 Mynd: ANDREW GOMBERT - EPA
Britney reynir að fara í bíltúr 2007.

„Svo eru þessar myndir þar sem ljósmyndararnir sitja í kringum hana og hún situr inni í sjúkrabíl, hún er svo umkomulaus. Og svo hjálparvana. Og það er merkilegt að hugsa til þess núna, tólf árum síðar. Ætli fjölmiðlar myndu fjalla um manneskju sem augljóslega glímir við geðsjúkdóm, er augljóslega veik,  hvort þeir myndu fjalla um það með þessum hætti? Við náttúrlega bara sáum manneskju sem var að veikjast. Og hún varð veikari og veikari og veikari og þetta var söluefni. Varð umfjöllunarefni í götublöðum.

Ég held að sem betur fer sé þekking okkar orðin meiri og umræðan orðin opnari um sjúkdóma. Ég held að við myndum aldrei fjalla um manneskju sem væri að verða veik á þann hátt sem við gerðum um Britney Spears,“ segir Freyr Gígja. 

Átti að vera kynþokkfull og óspjölluð

Það skal kannski engan undra að Britney Spears hafi veikst. Hún var ekki orðin sautján ára þegar hún gaf út sitt fyrsta lag og skaust á örskotsstundu lengst upp á stjörnuhimininn. „Það er ekki hægt að ímynda sér álagið sem var á þessari manneskju. Í þokkabót stýrði hún því aldrei sjálf hver hún væri. Þetta var úthugsað af umboðsmönnum og foreldrum hennar. Hún var ákveðin vara og það skyldi selja hana sem slíka. Hún átti að vera kynþokkafull, en hún átti að vera óspjölluð. Hún átti að vera kristin en jafnframt líka ögrandi.

Það er í rauninni bara heimsins skiljanlegasti hlutur að hún skuli hafa veikst af öllu þessu ótrúlega álagi, af öllu sem á hana var lagt,“  segir Freyr Gígja. 

#Frelsum-Britney fer á flug

Fallið var afar hátt. Skærasta stjarnan í poppheiminum missti forræðið yfir börnunum sínum tveimur, var svipt sjálfræði og lögð inn á geðdeild. Þarna héldu flestir að ferli hennar væri lokið. En sú varð sannarlega ekki raunin. Frá 2008 hefur hún sinnt ótal verkefnum. Einnig hefur hún gefið út fjórar plötur,  verið dómari í X-Factor og haldið úti afar vinsælli sýningu í Las Vegas.  Sagan segir að Britney fái um sjötíu milljónir króna fyrir hverja sýningu. Auðæfi hennar hlaupa á milljörðum króna og hún ræður litlu, eða eiginlega bara engu, um það sjálf í hvað þau fara.

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

A post shared by #FreeBritney (@freebritneymovement) on

Síðustu misseri hefur herferðin #FreeBritney eða frelsum Britney farið mikinn á samfélagsmiðlum. Stór hópur fólks stendur í þeirri trú að Britney sé í raun fangi föður síns. Hún hafi verið svipt sjálfræði á fölskum forsendum og faðir hennar, Jamie Spears, sem hefur verið lögráðamaður hennar ásamt lögfræðingi, beri hennar hag ekki fyrir brjósti. Er eitthvað til í þessu? Við slógum á þráðinn til Bandaríkjanna, nánar tiltekið til Kaliforníu, þar sem Britney býr. 

Laura Newberry er blaðakona hjá dagblaðinu Los Angeles Times. Hún er líklega ein þeirra sem hefur rannsakað mál Britney Spears hvað mest. Slúðurmiðlar birta enn ógrynni af greinum um Britney en LA Times er enginn slúðurmiðill. Newberry varði nokkrum mánuðum í að komast til botns í málinu. Þá lá beinast við að spyrja, er eitthvað hæft í þessum ásökunum? „Ég veit það ekki. Eins og ég segi, þá eyddi ég nokkrum mánuðum í að skoða málið og þurfti aðallega að styðjast við dómsskjöl og álit sérfræðinga um sjálfræðissviptingu,“ segir Newberry. 

epa00187126 Britney Spears performs in Rotterdam, Friday 07 May 2004. It's her only concert in Holland of her 'The Onyx Hotel Tour.' The 2004 European tour of the world's reigning pop princess Britney Spears includes a series of concerts across Europe between 30 April and 05 June 2004.  EPA/RICK NEDERSTIGT
 Mynd: RICK NEDERSTIGT - EPA
Britney í fullu fjöri á tónleikaferðalagi 2004.

Þau sem tengjast Britney eru nefnilega öll þögul sem gröfin. Newberry setti sig í samband við alla sem henni tengjast. Einn þeirra sem var eitt sinn í innsta hring Britney tjáði henni að allir í kringum söngkonuna skrifuðu undir svokallaðan leyndarsamning, sem tryggði að það yrði dýrkeypt fyrir þau að tjá þau sig um málefni hennar opinberlega. Þá ákvað hún að einbeita sér að því að komast að því hvernig fyrirkomulagið sem Britney er skipuð í virkar.

„Henni var skipaður lögráðamaður af dómstólum. Þetta fyrirkomulag er yfirleitt notað í tilkvikum þar sem fólk er gamalt, veikt og getur alls ekki séð um sig sjálf,“ segir Newberry. Sem sagt, það er ekki algengt að heimsfrægar, moldríkar poppstjörnur á fertugsaldri sem enn eru að vinna á fullu séu í þessari stöðu. 

En Newberry leitaði álits hjá hjá fjölda dómara og lögfræðinga sem sérhæfa sig í þessum málum. Þau voru sammála um að það hefði verið ómögulegt lögfræðilega að koma þessu fyrirkomulagi á ef það hefði ekki verið talið nauðsyn.

Sýningum aflýst og lögmaðurinn lýsir áhyggjum

Þau eru fjölmörg sem styðja #FreeBritney hreyfinguna og þessi hópur hefur verið afar áberandi á samfélagsmiðlum síðustu misseri. En Britney hefur ekki haft stjórn á eigin lífi í tólf ár, hvers vegna fór þessi hreyfing fyrst af stað í fyrra? Newberry segir að það hafi vakið furðu þegar Britney aflýsti Vegas-sýningunni sinni í fyrra, að sögn vegna veikinda föður hennar. „Stuttu síðar hætti lögfræðingurinn, sem var annar af tveimur lögráðamönnum Britney ásamt föður hennar Jamie Spears, frekar skyndilega. Hann sagðist ekki sammála öllu, hann orðaði það á ákveðinn hátt en sagði að sumt sem gengi á væri óverjandi. Einhvern veginn þannig orðaði hann það,“ segir Newberry. 

Ónafngreindi maðurinn skilur eftir skilaboð

Eftir það ákváðu tvær konur sem héldu úti vinsælu hlaðvarpi um Instagram-reikning Britney að breyta því í rannsókn á þessu fyrirkomulagi. Þá fá þær hljóðskilaboð frá ónafngreindum manni sem segist hafa unnið á lögfræðistofu sem sá að hluta um mál Britney. Newberry segist ekki hafa getað staðfest hver hann er en hlaðvarpsstjórnendurnir sögðust geta gert það og segja hann trúverðugan heimildarmann. Sá nafnlausi sagði að það sem gengi á væri óhugnanlegt og lýsti því í hljóðskilaboðunum hvernig faðir Britney hefði bannað henni að halda sýningarnar í Vegas í fyrra því hún neitaði að taka lyfin sín. Þá hafi hún verið vistuð á geðdeild gegn vilja sínum. Upp frá þessu varð Frelsum Britney-herferðin sífellt háværari.

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

A post shared by Britney Spears (@britneyspears) on

Óþægilegar og furðulegar færslur á Instagram

Færslur á Instagram-síðu Britney hafa sannarlega vakið athygli og furðu. Það er augljóst að henni líður ekki vel. Í myndbandi, sem birtist síðasta föstudag, segist hún ætla að svara öllum spurningum úr athugasemdakerfinu. Britney er öll á iði og heldur óðamála, lítur ekki út fyrir að líða neitt sérstaklega vel.

En í athugasemdum er bent á að hún hunsi langalgengustu spurningarnar. Við nánast hverja einustu færslu sem birtist á Instagram hjá Britney eru þúsundir athugasemda. Margar þeirra er á þessa leið:

  • „Sama myndbandið í marga mánuði?? Hvar er Britney?“
  •  „Fólk, ég held að Britney sé dáin, eða deyfð með lyfjum þannig að hún getur ekki einu sinni staðið upp - þessi myndbönd eru klárlega tekin upp fyrir löngu.“
  • „Vertu í rauðu á næstu mynd ef þú ert í hættu!!!!!!“
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

A post shared by Britney Spears (@britneyspears) on

Fólk sér þessar færslur á tvo vegu, segir Newberry. Sum sjá kjánalega manneskju sem hefur einhvern veginn ekki fullorðnast almennilega á meðan önnur sjá manneskju sem er fangi í kastalanum sínum í Los Angeles og missir vitið smám saman.

Vill losna undan stjórn föður síns

Ég lagði upp með það að leiða ykkur í allan sannleikann um hagi Britney Spears. Því miður virðist það ekki hægt, enn sem komið er. Fólkið í kringum hana lekur engu, alls konar kenningar eru í umferð sem ekki er hægt að sannreyna. En það sem stendur eftir er að í síðustu viku fór Britney þess sjálf á leit við dómstóla að fá annan lögráðamann en föður sinn. Í beiðninni segir að hún sé ekki mótfallinn því að hafa lögráðamann, en hún vilji ekki að faðir hennar sinni því áfram. Henni varð ekki að ósk sinni, fyrirkomulagið var framlengt í óbreyttri mynd fram í febrúar á næsta ári.

Það kom Newberry spánskt fyrir sjónir að það skyldi vera faðir hennar af öllum sem stjórnar stórum hluta af lífi hennar. Hún varði dágóðum tíma í að rannsaka tengsl innan Spears fjölskyldunnar. „Það lítur út fyrir að Britney hafi alla tíð átt stormasamt samband við föður sinn Jamie. Hann átti í vandræðum með áfengi og var ekki alltaf til staðar. Maður myndi ætla að hver sá sem tekur yfir stjórn á stórum hluta af lífi þínu væri einhver sem þú ættir góðu sambandi við í æsku og framan af fullorðinsárunum.“

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV