Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Árangur landamæraaðgerða metinn eftir helgi

29.08.2020 - 19:31
Mynd: RÚV / RÚV fréttir
Á þeim tíu dögum frá því að farið var að skima alla komufarþega tvisvar með fimm daga sóttkví á milli, hefur enginn greinst með veiruna í seinni skimun.  Sóttvarnaráðstafanir á landamærum verða endurmetnar eftir helgi. 

Frá því að hertar aðgerðir á landamærum tóku gildi 19. ágúst, þar sem öllum sem koma til landsins er gert að fara í tvöfalda sýnatöku og fimm daga sóttkví, hafa ríflega sautján þúsund sýni verið tekin. Þar af hafa sautján greinst með veiruna strax við komuna til landsins, en enginn greinst í seinni skimun. Þetta staðfestir upplýsingafulltrúi almannavarna.

Síðar hefur komið í ljós að þrír hafi greinst jákvæðir í seinni skimun. Samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum voru þetta þær upplýsingar sem lágu fyrir á þeim tíma, af því að upplýsingar um sýnatöku úr seinni skimun eru ekki alltaf merktar strax frá upphafi með þeim hætti í kerfinu.

Frá því að slakað var á ferðatakmörkunum 15. júní hafa ríflega 123 þúsund sýni verið tekin á landamærum. Þar af hafa um það bil tólf greinst jákvæðir eftir að hafa greinst neikvæðir við skimun á landamærum, eða um 0,01%. 

Búist er við því að sóttvarnalæknir hefji vinnu við að meta árangur þeirra sóttvarnaráðstafana sem nú eru í gildi á mánudag, þegar hann snýr aftur úr stuttu fríi. 

Forsætisráðuneytið telur stjórnvöld hafa farið að lögum

Reimar Pétursson, fyrrverandi formaður Lögmannafélags Íslands, telur vafa á því hvort hertar aðgerðir á landamærum og takmarkanir á atvinnufrelsi fjölmennra hópa samrýmast stjórnarskrá. „Það er fátt sem bendir til þess að það verði einhver breyting á ástandinu mjög snarlega og þessi veira hverfi, þannig að mér sýnist miðað við hvernig staða mála er háttað núna að þá sé orðið mjög erfitt að réttlæta þessar ráðstafanir gagnvart stjórnarskrá og lögum,“ segir Reimar. 

Reimar telur að hægt sé að láta reyna á lögmæti aðgerðanna fyrir dómstólum, sem myndu þá skera úr um hvort til staðar sé til dæmis refsiheimild eða bótaskylda. 

Í svari frá forsætisráðuneytinu segir að stjórnvöld telji að þau hafi í einu og öllu farið eftir stjórnarskrá og lögum í aðgerðum til að hefta útbreiðslu veirunnar. Lagaheimildir séu til staðar í sóttvarnalögum og almannavarnalögum. Enda séu ríkir almannahagsmunir fyrir hendi. Reynt hafi verið að útfæra aðgerðir þannig að líkur á útbreiðslu faraldursins væru lágmarkaðar en skerðing á frelsi og réttindum einstaklinga gangi eins skammt og hægt er. 

Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt og athugasemd sett inn.

Svar ráðuneytisins í heild:
Stjórnvöld telja að þau hafi í einu og öllu farið eftir stjórnarskrá og lögum í aðgerðum til að hefta útbreiðslu heimsfaraldurs af völdum Covid-19 veirunnar. Það er rétt að þessar aðgerðir hafa komið niður á ýmsum réttindum fólks eins og ferðafrelsi, fundafrelsi, atvinnufrelsi, rétti til skólagöngu og rétti til að njóta menningarviðburða. Allt eru þetta mikilvæg réttindi einstaklinga sem sum hver njóta stjórnarskrárverndar. En tilgangurinn er að vernda líf og heilsu landsmanna sem er ekki síður grundvallaratriði.

Almennt talað þarf skerðing á grundvallarréttindum að uppfylla þrjú skilyrði til að vera heimil. Hún þarf að byggjast á lögum, þjóna lögmætum markmiðum og hún má ekki ganga lengra en nauðsyn krefur.

Helsta lagaheimildin fyrir aðgerðum stjórnvalda er í 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 þar sem segir að ráðherra ákveði að fenginni tillögu sóttvarnalæknis hvort grípa skuli til opinberra sóttvarnaráðstafana, svo sem ónæmisaðgerða, einangrunar smitaðra, sótthreinsunar, afkvíunar byggðarlaga eða landsins alls, lokunar skóla eða samkomubanns. Þetta hefur verið gert með reglugerðum sem eru endurskoðaðar reglulega. Almannavarnalög nr. 82/2008 endurspegla einnig að þegar hætta steðjar að hafa stjórnvöld víðtækar heimildir til nauðsynlegra ráðstafana.

Markmiðið með aðgerðunum undanfarna mánuði er að hefta útbreiðslu farsóttar og þar með að standa vörð um líf og heilsu landsmanna. Það eru því mjög ríkir almannahagsmunir fyrir hendi.

Allar aðgerðir hafa verði byggðar á faglegu mati á hættunni af völdum farsóttarinnar og því sem vitað er á hverjum tíma um eiginleika hennar. Reynslan hefur verið nýtt til að útfæra aðgerðir þannig að líkur á útbreiðslu faraldursins séu lágmarkaðar en skerðing á frelsi og réttindum einstaklinga gangi eins skammt og hægt er. Öflug upplýsingagjöf, leiðbeiningar og áhersla á samstöðu hefur að verulegu leyti komið í stað beitingar opinbers valds. Aldrei hefur verið sett á útgöngubann eða skólum lokað í heild sinni eins og gert hefur verið víða í Evrópu. Þá hefur landinu aldrei verið lokað fyrir umferð heldur mismunandi íþyngjandi sóttvarnakvaðir verið lagðar á þá sem koma til landsins í takt við þróun faraldursins og aðgerðir í öðrum ríkjum og stöðu innanlands.

Nú hefur heilbrigðisráðherra boðað endurskoðun sóttvarnalaga í ljósi reynslunnar og mun þá meðal annars verða metið hvort útfæra eigi nánar nauðsynlegar heimildir stjórnvalda til að bregðast með skjótum og markvissum hætti við þegar slík ógn steðjar að.