Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Uppreisnin í sápukúlunni

Mynd: EPA-EFE / EPA
Úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta komst í uppnám þegar leikmenn lögðu niður störf í vikunni. Þeir sögðu að of lengi hefðu þeldökkir Bandaríkjamenn búið við misrétti og lögregluofbeldi. Nú væri kominn tími á breytingar. Leikmennirnir, þjálfarar og fjölmennt lið aðstoðarfólks og heilbrigðisstarfsfólks hefur verið lokað af inni á einagruðu svæði sem líkt hefur verið við sápukúlu. Vernda átti þátttakendur frá COVID-19 en fregnir af lögregluofbeldi og kynþáttahatri streymdu þangað inn.

Doc Rivers var mikið niðri fyrir þegar hann ræddi við fjölmiðla eftir leik á þriðjudagskvöld. Lögreglumenn höfðu skotið 29 ára þeldökkan mann í bakið fyrir framan börn hans. Á sama tíma ræddu fulltrúar á flokksþingi Repúblikana um nauðsyn sterkrar löggæslu. Doc Rivers, sem er þjálfari LA Clippers og sonur lögreglumanns, furðaði sig á tali hvítra Repúblikana um ótta því að það væri svart fólk sem verið væri að drepa, skjóta, og mismuna. 

„Það er furðulegt að við elskum þetta land áfram en það elskar okkur ekki á móti,“ sagði Rivers.

Doc Rivers var hvorki fyrsti né síðasti leikmaðurinn eða þjálfarinn í NBA til að tala um lögregluofbeldi og misrétti gagnvart þeldökku fólki. Þegar deildin og leikmannasamtök sömdu um að halda keppni áfram í skugga COVID-19 var þetta eitt af helstu umræðuefnunum. Af hverju eigum við að loka okkur af í einangraðri sápukúlu meðan kórónuveira og lögregluofbeldi geisa í landinu, spurðu leikmenn. Þess vegna eru orðin Black Lives Matters áberandi á leikvöngum og leikmenn geta valið úr nokkrum orðum og slagorðum til að setja á búninga sína. Svo sem jafnrétti, réttlæti og and-rasisti. En líka setningarnar „Ég get ekki andað“, og „Nefndu hana á nafn“ til að vekja athygli á örlögum þeldökks fólks sem lögreglumenn hafa drepið. 

Sennilega voru þó fæstir búnir undir það sem gerðist á miðvikudag. Leikmenn Milwaukee Bucks, sem er í sama ríki og Jacob Blake sem lögregla skaut sjö sinnum í bakið, neituðu að mæta til leiks. Þeir tilkynntu að þeir myndu sniðganga leikinn til að krefjast réttlætis fyrir Blake. Miklar kröfur væru gerðar til þeirra í hvert sinn sem þeir stigju inn á völlinn.

Leikmennirnir kröfðust þess að stjórnvöld og lögregla öxluðu ábyrgð, meðal annars með því að ríkisþingið kæmi saman eftir margra mánaða aðgerðaleysi. George Hill og Sterling Brown lásu upp yfirlýsingu leikmanna. Valið á Brown var táknrænt. Hann lagði bíl sínum ólöglega fyrir framan verslun að kvöldlagi í janúar árið 2018. Atvik sem venjulega hefði lokið með sekt sem lögreglumaður skrifaði á staðnum leiddi til þess að fljótlega var fjöldi lögreglumanna kominn á vettvang. Fimm þeirra sneru Brown niður og gáfu honum raflost með stuðbyssu. Yfirvöld buðu leikmanninum andvirði 55 milljóna króna í bætur en Sterling Brown sagðist ekki geta látið kaupa þögn sína.

epa08484038 People march over the Brooklyn Bridge during a Black Lives Matter protest against police brutality as part of the larger public response to the recent death of George Floyd, an African-American man who died while in the custody of the Minneapolis police, in New York, New York, USA, 13 June 2020. There have been wide spread protests following Floyd?s death, which was captured in a cell phone video where a police officer, who has now been charged with murder, is kneeling on Floyd's neck while he is saying 'I can't breathe'.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Dauði George Floyd fyrir hendi lögreglumanna leysti úr læðingi öldu mótmæla.

Morð lögreglumanna á George Floyd í maí hefur sett lögregluofbeldi og stöðu þeldökkra Bandaríkjamanna í kastljósið. NBA-leikmenn eru lokaðir inni í sápukúlu þar sem tryggja átti að hægt væri að ljúka keppni án hættu á COVID-19 smiti. Þeir eru þó ekki einangraðir frá þjóðfélagsumræðunni eins og sást á miðvikudag. Fljótlega eftir að leikmenn Bucks ákváðu að spila ekki var öllum leikjum frestað. Leikmenn funduðu mikið og lengi. Sumir vildu hætta keppni og fara heim. Sögðust ekki geta spilað körfubolta meðan saklaust fólk væri undirokað og drepið. Að lokum virtist ná samstaða um að halda áfram en nota keppnina sem vettvang til að berjast fyrir samfélagsumbótum. Forsvarsmenn liða lýstu stuðningi við leikmenn sína. Dómarar fóru í göngu klæddir bolum með áletruninni „Allir gegn kynþáttahatri“. Leikmenn í fleiri íþróttagreinum fylgdu fordæmi körfuboltamanna og lögðu niður störf.

Blaðamaðurinn Jonathan Eig hefur skrifað ævisögur hnefaleikakappans Muhammads Ali og Jackies Robinson sem báðir urðu fyrir kynþáttamisrétti og beittu sér fyrir betra samfélagi. Eig sagði í viðhorfsgrein í The Washington Post í vikunni að ákvörðun Bucks um að spila ekki væri ef til vill djarfasta atlaga íþróttaheimsins að kynþáttamisrétti frá því á Ólympíuleikunum í Mexíkó árið 1968. 

Hann vísaði þar til þess þegar Tommy Smith og John Carlos notuðu verðlaunaathöfn til að vekja athygli á hlutskipti svarts fólks í Bandarikjunum.

Tommy Smith sagði að svartir hanskarnir sem hann og Carlos báru væru til marks um svart afl og samstöðu, þeir voru á sokkaleistunum, í svörtum sokkum og það væri til marks um fátækt. Á sama árabili barðist Muhammad Ali gegn kynþáttamisrétti. Hann rifjaði eitt sinn upp að afa hans hefði verið lofað að hlutirnir yrðu betri þegar sonur hans yrði eldri, pabba hans hefði verið lofað því sama og nú honum, en ekkert breyttist.

epaselect epa08623202 Members of the Orlando Magic and the Milwaukee Bucks take a knee during the national anthem before their NBA basketball first-round playoff game four at the ESPN Wide World of Sports Complex in Kissimmee, Florida, USA, 24 August 2020.  EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO SHUTTERSTOCK OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Flestir krupu fyrir leiki í sápukúlunni. Fjórum árum eftir að Colin Kapernick kraup fyrst til að mótmæla lögregluofbeldi neituðu Bucks að spila.