Þriðji póllinn er opnunarmynd RIFF

Mynd með færslu
 Mynd: SENA

Þriðji póllinn er opnunarmynd RIFF

28.08.2020 - 15:19

Höfundar

RIFF, alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, hefst 24. september með sýningu á heimildarmyndinni Þriðja pólnum eftir Andra Snæ Magnason og Anní Ólafsdóttur.

Þriðji Póllinn er heimildarmynd um geðhvörf. Í henni er fylgst með ferðalagi Högna Egilssonar og Önnu Töru Edwards um framandi slóðir í Nepal. Myndin veitir innsýn í hugsun og veruleika fólks sem hefur glímt við sama sjúkdóm. 

Anna Tara Edwards er íslensk kona sem ólst upp í frumskógum Nepals innan um tígrisdýr og nashyrninga. Þegar móðir hennar veiktist af geðhvörfum, sem drógu hana loks til dauða, sundraðist fjölskyldan. Upp úr tvítugu greindist hún sjálf með sama sjúkdóm. Það varð henni innblástur þegar tónlistarmaðurinn Högni Egilsson steig fram og greindi frá sínum veikindum. Anna Tara efndi í kjölfarið til geðheilsuvakningar í Nepal, opnaði sjálfshjálparlínu og hélt styrktartónleika í Katmandú.

 

Myndin hefur verið í vinnslu í þrjú ár og til stóð að frumsýna hana í mars en ekkert varð af þeim áformum vegna heimsfaraldursins. „Þetta er auðvitað meira tjón fyrir þá sem eru búnir að æfa leikrit eða slíkt. Við getum geymt myndina þar til heimurinn fer aftur af stað,“ sagði Andri Snær í samtali við Mannlega þáttinn á Rás 1 um það leyti sem til stóð að sýna myndina.

Þetta er fyrsta mynd Anní Ólafsdóttur í fullri lengd en Andri Snær Magnason hefur áður leikstýrt heimildarmyndinni Draumalandinu ásamt Þorfinni Guðnasyni.

RIFF hefst 24. september og verður sýnt úrval mynda í Bíó Paradís og Norræna húsinu á hátíðinni. Jafnframt verður hægt að njóta hátíðarinnar í heimahúsum í gegnum vefsvæði RIFF. Hátíðin stendur formlega yfir í 11 daga en teygir sig inn í næstu mánuði með kvikmyndasýningum í október og nóvember. Þær sýningar eru hugsaðar sem brú yfir til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna EFA sem til stendur að veita hér á landi í desember. Miðasala verður kynnt á næstu dögum.

 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Fannst óhugsandi að lifa að slökkt yrði á heiminum