Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telur of margar stórar „smávirkjanir“ á teikniborðinu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Sigurðsson - RÚV
Umhverfisráðherra telur að verið sé að undirbúa of margar virkjanir í flokki svokallaðra smávirkjana sem hafi umtalsverð neikvæð umhverfisáhrif. Nauðsynlegt sé að endurskoða lög um smávirkjanir og meta áhrifin af þeim frekar er uppsett afl.

Frá árinu 2016 hefur Orkustofnun stýrt skráningu smærri virkjanakosta í því skyni að auka raforkuframleiðslu víða um land og bæta þar með orkuöryggi þar sem raforku skortir. Undir flokk smávirkjana heyra virkjanir undir 10 megavöttum. Þær falla ekki beint undir lög um mat á umhverfisáhrifum en eru tilkynningaskyldar til Skipulagsstofnunar. Umfang þeirra ræður hvort þær fara í umhverfismat.

Frekar að horfa á umhverfisáhrifin en uppsett afl

Tugir virkjana í þessum flokki eru nú ýmist á rannsóknarstigi eða í byggingu. Margar þeirra eru stórar með tilheyrandi umhverfisáhrifum og Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra segir ástæðu til að endurskoða reglur um þessar virkjanir. „Ég held að við þurfum að skoða miklu frekar, en að það sé eitthvað ákveðið viðmið eins og 10 megavött, þá séum við frekar að horfa á áhrifin af þessu. Vegna þess að þú getur verið með 9,5 megavatta virkjun sem hefur alvegsömu neikvæðu áhrifin og 15 epa 20 megavatta.“

Fjölmörg dæmi um mjög alvarleg umhverfisáhrif

Og hann telur að á teikniborðinu séu of margar smávirkjanir upp undir tíu megavött. „Við þurfum að gera gangskör að því með hvaða móti við getum náð betur utan um þetta. Því að í mörgum tilfellum er um mjög alvarleg umhverfisáhrif að ræða og við getum nefnt fjölmörg dæmi um það.“