Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Svart og sykurlaust

Mynd með færslu
 Mynd: Sigurður Oddsson - Les Freres Stefson

Svart og sykurlaust

28.08.2020 - 10:20

Höfundar

Undir bláu tungli er önnur sólóskífa Loga Pedros og plata vikunnar á Rás 2 og á henni ólgar kraftur og áræðni. Hún kemur í kjölfar plötunnar Litlir svartir strákar sem kom út fyrir réttum tveimur árum.

„Hann er með tónlistina, hann hefur eitthvað að segja, hann er bara með „þetta“. Haltu áfram drengur...“. Svona lauk ég dómi mínum um vel heppnaðan frumburð Loga Pedro sem út kom fyrir tveimur árum. Og þessi hæfileikaríki drengur hefur hlýtt því kalli sem betur fer. Litlir svartir strákar vakti verðskuldaða athygli, ekki bara fyrir hið góða vald sem Logi hefur á takt- og lagasmíðum heldur og fyrir djörfung og þor í textasmíði, hvar saman fóru hápólitískar hugleiðingar um réttarstöðu svartra í samtímanum í bland við persónulegri pælingar, meðal annars um veika stöðu karlmanna þegar kemur að tjáningu á tilfinningalífi.

Framvinda

Undir bláu tungli er hljóðrituð í Síerra Leóne í Vestur-Afríku og hér á Íslandi og nýtti Logi m.a. afríska strauma í plötuvinnslunni. Hann hefur sjálfur sagt að platan sé nokkurs konar sambræðsla íslenskrar og afrískrar menningar og snerti jafnt á íslenskri dægurmenningu og afrískum uppruna hans.

Ég sé að ég hef gagnrýnt frumburðinn fyrir losaralegheit, en hann var stíllega dálítið tvístraður, eitthvað sem oftast er hægt að skrifa á eðli fyrstu platna þar sem listafólk er að reyna sig við eitt og annað, og geldur fókusinn fyrir. Allt slíkt er á bak og burt hér. Platan er fyrir það fyrsta styttri, um 20 mínútur og sex laga (með einu bónuslagi) og þétt eftir því. Hún rúllar reyndar alveg dæmalaust vel áfram og það er afar sterkur heildarsvipur á öllu. Lögin eru pottþétt, allir taktar og hljóðvinnsla upp á tíu og framvinda þeirra hnökralaus. Logi leggur fyrir sig einslags poppað r og b með dassi af hipphoppi og er orðinn völundur á formið, hagleiksmaður sem virðist geta spýtt „bangerum“ út eins og að drekka vatn. Hann syngur plötuna einstaklega vel, ástríðufullur og djarfur.

Natinn

„Sól“ og „Ef Grettisgata gæti talað“ eru stuðvænar neglur en Loga er líka lagið að búa til ballöður sem tosa í hjartað. „Móðir“ er fallegur ástaróður og textinn er natinn. Og ég hrósa Loga fyrir textagerðina út í gegn. Líkt og á Litlir svartir strákar stingur Logi kinnroðalaust á rasískum kýlum með glettni og töffaraheit að vopni. Í „Móðir“ segir „þetta bláa skinn, sem þú gafst mér“ og í „Um Da Tímann og ´N Da Vatnið“ segir „erum stoltir, erum svartir /erum kaffibrúnir, kaffi...“. Það ólgar kraftur og áræðni í þessu lagi, eins og restinni af plötunni. „Reykjavik - Bonus“ slær svo flottan, eiginlega harmrænan, lokatón.  Já, ég er vel sáttur eins og sjá má. Rúsínan í pylsuendann er svo umslagshönnun og stílísering sem var í höndum Sigurðar Oddssonar. Snilld, allt saman!

Tengdar fréttir

Popptónlist

Logi Pedro - Undir bláu tungli

Kynntist nútímalegu afrísku poppi í Síerra Leóne

Tónlist

„Mitt Ísland er litríkt“

Tónlist

„Martröð Miðflokksins“ fagnar afrísk-norrænum uppruna