Meira en sjö milljón eintök hafa selst í netverslun tölvuleikjasölunnar Steam en fjöldi eintaka sem selst hafa á PlayStation er enn ótilgreindur. Leikurinn er hins vegar á hraðri leið með að seljast betur en sumir af vinsælustu tölvuleikjum á markaðnum í dag, miðað við fyrsta mánuð eftir útgáfu, en hann kom út 4. ágúst á þessu ári. Þá er Fall Guys nú þegar orðinn sá leikur sem hefur verið hlaðið oftast niður á netþjóni Sony, PlayStation Plus, og sló þar við bæði Fortnite og Twitch.
Leikurinn er svokallaður „battle royale leikur“ þar sem margir spilarar koma saman í gegnum netið og keppa á móti hver öðrum. Sextíu spilara þarf til að hefja leikinn og þegar allir hafa valið sér sína hlaupbaun er markmiðið að komast í gegnum hverja mismunandi þrautina á fætur annarri, kapphlaup, hindrunarhlaup og jafnvel samvinnuþrautir. Þær hlaupbaunir sem fara of hægt yfir, detta af brautinni eða voru kannski í liðinu sem safnaði fæstum eggjum, svo dæmi séu tekin, detta úr leik.
Geir Finnsson, tölvuleikjasérfræðingur, segir að leikurinn sé að njóta vinsælda sem alls ekki hafði verið búist við fyrir fram en líkir því að spila hann við það að fara í Wipeout með hundrað manns í skærlitri regnbogaælu.