Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Greiðslubyrði gæti hækkað um tugi þúsunda

28.08.2020 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson
Varaseðlabankastjóri segir mikilvægt að fólk sem tekur óverðtryggð lán geri sér grein fyrir að 1% stýrivextir Seðlabanka séu ekki komnir til að vera. Afborganir lána gætu hækkað verulega þegar stýrivextir hækka á ný. Samkvæmt lauslegum útreikningum gæti mánaðarleg greiðslubyrði húsnæðisláns hækkað um jafnvel 70 þúsund krónur.

Margir að endurfjármagna

Íslendingar tóku óverðtryggð lán fyrir meira en 45 milljarða hjá bönkunum í júlí en verðtryggð lán fyrir rúma þrjá milljarða. Sumir eru að endurfjármagna húsnæðislán með óverðtryggðum lánum og greiða upp verðtryggð lífeyrissjóðslán. Tölur yfir uppgreidd lífeyrisstjóðslán á þessum tíma liggja ekki fyrir.

Vinsældir óverðtryggðra lána má meðal annars rekja til mikilla vaxtalækkana að undanförnu sem hefur leitt til lægri greiðslubyrði, en Seðlabanki Íslands tilkynnti í vikunni að stýrivextir yrðu áfram 1%.

Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, segir að afborganir lána geti aukist verulega þegar stýrivextir hækka. „Það er ólíklegt að stýrivextir verði 1% til langframa og vonandi ekki, vegna þess að ástæðan fyrir því að stýrivextirnir eru núna 1% er að við erum að fara í gegnum mikinn samdrátt í þjóðarbúskapnum,“ segir Rannveig. Hún segir að bankinn miði við að stýrivextir séu um 4,5% til þess að halda jafnvægi í hagkerfinu. „Sem sagt 3,5% hærri en þeir stýrivextir sem við erum núna með.“ 

140 þúsund króna afborganir geta farið í 210 þúsund

„Við gerum ráð fyrir því að þegar að hagvöxtur fer að taka við sér og betra jafnvægi komist á að þá muni stýrivextir hækka,“ segir Rannveig. Þetta þurfi lántakendur að hafa í huga þegar þeir taka óverðtryggð lán. „Það er rétt að fólk reikni með því að þegar það er að meta greiðslubyrði sína til framtíðar að vextir verði ekki svona lágir lengi,“ segir Rannveig. 

Miðað við þetta þá gæti greiðslubyrði af láni að fjárhæð 35 milljónir króna til 40 ára við fyrstu kaup á húsnæði farið úr ríflega 140 þúsund krónum á mánuði í rétt yfir 210 þúsund ef vextir hækkuðu í það sem telja má eðlilegt ástand hér á landi, samkvæmt lauslegum útreikningum.