Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gagnrýnir ummæli Seðlabankastjóra um Sundabraut

Mynd með færslu
 Mynd:
Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, gagnrýndi ummæli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra, um að það væri „stórundarlegt og ámælisvert“ að ekki hafi verið ráðist í uppbyggingu Sundabrautar, í færslu á Facebook í gær.

Ásgeir Jónsson sagði á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í gær að honum þætti „alveg stórundarlegt og ámælisvert að Sundabraut hafi ekki verið byggð miðað við þá umferð sem er í bænum“. Vandinn við innviðafjárfestingar sem þessa væri gjarnan tæknilegur en ekki peningalegur og fælist í því að það tæki langan tíma að undirbúa þær. „Við getum hæglega fjármagnað þetta,“ sagði hann. 

„Komandi kynslóðir eiga betra skilið“

„Við getum ekki haldið áfram með 'business as usual' og byggt 70 milljarða bílamannvirki með þremur mislægum gatnamótum. Komandi kynslóðir eiga betra skilið,“ skrifar Sigurborg í færslunni. 

Hún bendir á að í nýjustu skýrslu um Sundabraut komi fram að hún myndi auka heildarumferð á höfuðborgarsvæðinu og þannig hafa neikvæð áhrif á loftgæði. Því þurfi að rýna verkefnið betur með tilliti til markmiða um breyttar ferðavenjur og loftslagsáhrif.

Í skýrslunni segir að allar framkvæmdir sem auki bílaumferð innan höfuðborgarsvæðisins geti „unnið gegn markmiðum stjórnvalda um kolefnislaust sjálfbært borgarsamfélag og eflingu vistvænna ferðamáta“. Stjórnvöld skuli beina „kröftum sínum í samgönguverkefni sem stuðli jafnt að hagkvæmni, öryggi, greiðfærni, bættum loftgæðum og
loftslagsmálum“. 

Í færslunni bendir Sigurborg á kostnaðinn sem gæti fylgt því ef Ísland næði ekki markmiðum Parísarsamkomulagsins. „Það mun kosta okkur ómældar upphæðir að standa ekki við hann. Því þurfum við að breyta ferðavenjum, byggja Borgarlínu, þétta byggð, auka hjólreiðar og draga úr bílaumferð.“

„Eru þá ekki til peningar til að fjarlægja flugvöllinn?“

„Ef það eru til 70 milljarðar til þess að byggja Sundabraut – eru þá ekki til peningar til að fjarlægja flugvöllinn úr Vatnsmýri? byggja þar upp stærri miðbæ með þéttri byggð og háskólum á heimsmælikvarða. Nýsköpunar- og þekkingarsamfélagið í Vatnsmýri er hluti af því sem við þurfum til að standast alþjóðlega samkeppni annarra borga,“ skrifar hún.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV