Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Fimm baneitruð á battavöllinn

Mynd með færslu
 Mynd: Danmark Music Group - Cookie Scene

Fimm baneitruð á battavöllinn

28.08.2020 - 11:16

Höfundar

Það eru alls konar poppblöðrur í boði fyrir tónlistarunnandann í fimmunni í dag. Helst ber nefna; vænan versalakepp, dansvænan jórvíkurbúðing og síðan er það smákökusenan sem er sjóðheit svo er það hamingjan í hönnunarvörum og smá þetta-verður-allt-í-lagi-skilaboð, til að keyra helgina í gang.

Phoenix – Identical

Hljómsveitin Phoenix frá Versölum heldur áfram samstarfi sínu við Soffíu Coppola og rauf tveggja ára þögn með útgáfu lagsins Identical sem verður að finna í næstu mynd leikstýrunnar. Ræman heitir On the Rocks og er með stórstjörnunum Bill Murray, Rashidu Jones og Marlon Wayans í aðalhlutverkum og kemur í haust.


Working Mens Club – Valleys

Búðingarnir Working Mens Club frá Jórvíkurskíri eru greinilega ekki bara bóla og halda áfram að dúndra út eðaleyrnakonfekti fyrir lýðinn. Í Valleys má sem í fyrri lögum heyra áhrif frá Soft Cell, Suicide og Fall, þó þeir daðri nokkuð augljóslega við yngri danstónlist líka í nýja slagaranum.


Go Team – Cookie Scene

Það eru ekki margar hljómsveitir sem hafa sérhæft sig í klappstýrupönkfönki en Go Team er sennilega sú næstfrægasta í þeirri senu. Að þessu sinni leita listaspírurnar fanga í smákökum og Salt N Peppa flokknum og baka fyrir aðdáendur sína hressandi lag sem heitir Cookie Scene (Smákökusenan, lauslega þýtt) og hver elskar ekki smákökur og Salt N Peppa?


The Neighbourhood – Devil's Advocate

Það eru fleiri en íslenskir rapparar sem bjóða syndinni reglulega í kaffi með ást sinni á hönnunarvörum, humri, grillum, gervipelsum og demöntum. En þegar maður fær leiða á leitinni af hamingjunni í hönnunarvörum (innskot: verður blankur), þá er fátt betra en að finna lífshamingjuna í litlu hlutunum, eða það syngja að minnsta kosti kvöldu heimspekingarnir í hljómsveitinni Neighbourhood.


Arlo Parks – Hurt

Black Dog, síðasti söngull Arlo Parks, fjallaði frekar augljóslega um þunglyndi á erfiðum tímum og nú vill hún bæta fyrir þunglyndisbrot sitt milliliðalaust með nýja laginu sínu Hurt. Þar reynir hún að stappa stálinu í fólk sem þjáist á tímum pestarinnar þó að hún detti sem betur fer ekki í óþolandi jákvæðnispressu og yfirgengilegt plastpepp.


Fimman á Spottanum