Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fagnaðarlæti þegar kúgunarverknaður var innsiglaður

Mynd með færslu
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir. Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, gerði kjaradeilu flugfreyja við Icelandair og lánalínuna sem ríkisstjórnin hefur tilkynnt að veita eigi flugfélaginu að umtalsefni í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

Rifjaði Þórhildur Sunna upp að í vor hefði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ekki verið mjög áhugasöm um að koma Icelandair til hjálpar. Sagði Þórhildur Sunna ráðherra þá hafa sagt stjórnvöld reiðubúin að veita flugfélaginu lánalínu og ríkisábyrgð þegar því hefði tekist að auka hlutafé sitt.

„Nú er staðan önnur og lánalína er í boði án þess að hlutafjárútboð hafi einu sinni átt sér stað,“ sagði Þórhildur Sunna og spurði ráðherra hvers vegna nú þætti ásættanlegt að veita ríkisábyrgð á lánalínu án þess að hlutafjárútboð hafi farið fram.

Katrín svaraði því til að frumvarpið sem nú liggi fyrir þinginu um lánalínu til handa Icelandair sé háð vissum skilyrðum. „Þau hafa verið ljós frá því í vor og ekkert hefur breyst í því verkefni,“ sagði Katrín. „Ríkið hefur allan tímann lagt áherslu á að félagið ráðist sjálft í fjárhagslega endurskipulagningu, að félagið ljúki sjálft sínum kjarasamningum, samningum við hluthafa, lánadrottna og ljúki við hlutafjárútboð eigi að koma til þess að af lánalínunni verði.“

Þórhildur Sunna spurði einnig Katrínu út í kjaradeilu Icelandair við flugfreyjur og hvernig þeim samningum var náð. Flugfélaginu hefði tekist að semja um ríflega kjaraskerðingu við flugfreyjur með „mjög óvönduðum og ólöglegum hætti“ . Sjálf hefði hún ekki orðið vör við að forsætisráðherra hefði andmælt þegar Icelandair sagði öllum flugfreyjum upp og tilkynnti að samið yrði við annað stéttarfélag. „Ég tók hins vegar eftir fagnaðarlátum forsætisráðherra þegar kúgunarverknaðurinn var innsiglaður með samningum við flugfreyjur,“ sagði Þórhildur Sunna og spurði Katrínu „hvort fullnaðarsigur Icelandair gagnvart flugfreyjum hefði breytt afstöðu hennar til ríkisábyrgðar.“

Katrín sagði lánalínuna hafa frá upphafi verið byggða á ákveðnum leiðarljósum. „Um að það sé mikilvægt að hér á landi sé íslenskt flugfélag með höfuðstöðvar á Íslandi sem sé starfandi á íslenskum vinnumarkaði. Að flugfélag sé hér starfandi sem geti orðið mikilvægur aðili í efnahagslegri viðspyrnu, ekki síst ferðaþjónustunnar,“ sagði Katrín og kvaðst sjálf vera þeirrar skoðunar að kjaradeilur eigi að leysa við samningaborðið. „Og mér fannst að mjög jákvætt að þessi deila leystist við samningaborðið.“

Þórhildur Sunna spurðu hvort hvort engu skipti hvernig þeim samningunum var náð og ítrekaði Katrín þá sín fyrri orð um mikilvægi þess að hér á landi sé starfandi íslenskt flugfélag, með höfuðstöðvar á Íslandi og sem starfi á íslenskum vinnumarkaði og að kjaradeilur eigi að leysa við samningaborðið.