Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Enn óljóst hvort faraldurinn sé á uppleið eða niðurleið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Enn er „óljóst hvort við séum á leiðinni upp í langa stóra bylgju eða á toppnum á lítilli bylgju“. Þetta kemur fram í greinargerð með nýuppfærðu spálíkani Háskóla Íslands, Embættis landlæknis og Landspítala um þróun kórónuveirufaraldursins á Íslandi.

Þá segir að spáin bendi til þess að faraldurinn sé á niðurleið „ef aðstæður haldast óbreyttar“. Þó sé ljóst að aðstæður breytist, ekki síst þar sem skólahald sé nú nýhafið eða í þann mund að hefjast. Ýmsir óvissuþættir hafi áhrif á þróunina, til dæmis sé vandasamt að spá fyrir um áhrif skólahalds á framvindu farsóttarinnar og erfitt að segja til um það hversu vel tekst til við að viðhalda sóttvarnarráðstöfunum.

Samkvæmt líkaninu er líklegt að daglegur fjöldi nýgreindra smita verði á bilinu 1 til 6 næstu þrjár vikurnar, hugsanlega gætu þau þó farið upp í 13. Eftir þrjár vikur megi búast við að uppsafnaður fjöldi smita í annarri bylgju verði 200-260, en hann gæti rétt hugsanlega náð hæðum á borð við 350. Samkvæmt spánni aukast líkurnar á því að ekkert smit greinist daglega með hverjum deginum næstu þrjár vikurnar. Líkurnar á því að ekkert smit greinist í dag eru í kringum 5 prósent en þann 17. september verða þær um það bil 15 prósent. 

Mynd með færslu
 Mynd: Háskóli Íslands