Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Abe segir af sér af heilsufarsástæðum

28.08.2020 - 08:26
Erlent · Asía · Japan · Stjórnmál
epa08630790 (FILE) - Shinzo Abe, Japanese Prime Minister, announces his resignation during a news conference at the prime minister's office in Tokyo, Japan, 12 September 2007 (reissued 28 August 2020). Abe is reportedly about to announce his resignation as prime minister on 28 August 2020.  EPA-EFE/ROBERT GILHOOLY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Shinzo Abe, forsætisráðherra Japan, tilkynnti í dag að hann myndi segja af sér embætti af heilsufarsástæðum. Fregnir af yfirvofandi afsögn bárust fyrr í morgun, en Abe staðfesti svo tíðindin á fréttamannafundi.

Abe hefur þjáðst af sáraristilbólgu síðustu ár og þetta er í annað sinn sem hann segir af sér vegna heilsunnar. Það gerði hann einnig árið 2007, en tók svo aftur við embætti árið 2012 og sagði þá ný lyf halda sjúkdómnum í skefjum. Nú hafa veikindin hins vegar versnað á ný og þarf Abe meiri aðhlynningu en áður.

„Nú þegar ég get ekki lengur sinnt embættinu fyrir fólkið eins og ég best vildi, hef ég ákveðið að ég ætti ekki lengur að gegna starfi forsætisráðherra,“ sagði Abe og bað þjóðina afsökunar á að þurfa að stíga þetta skref í annað sinn.

„Ég vil biðja japönsku þjóðina afsökunar að láta af störfum þegar enn er eitt ár eftir af kjörtímabilinu. Ekki síst þar sem við glímum enn við kórónuveirufaraldurinn og við höfum ekki sett fram allar okkar aðgerðir í þeim efnum,“ sagði Abe.

Hann situr þó áfram í embætti þangað til arftaki hefur verið fundinn, en talið er líklegt að kosning fari fram innan Frjálslynda demókrataflokksins. Líklegir arftakar eru sagðir vera fjármálaráðherrann Taro Aso og Yoshihide Suga, einn æðsti embættismaður ríkisstjórnarinnar.

Aðeins fjórir dagar eru síðan Abe náði þeim áfanga að verða sá forsætisráðherra sem lengst hefur setið samfleytt í embætti. Hann fór fram úr frænda sínum Eisaku Sato sem sat á forsætisráðherrastóli semfleytt í 2.798 daga á árunum 1964 til 1972.