Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

72% minna af makríl við Ísland en í fyrra

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons/Ramon FVelasqu
Samantekt sameiginlegs uppsjávarleiðangurs Íslendinga, Grænlendinga, Færeyinga, Norðmanna og Dana sem farinn var á tímabilinu 1. júlí til 4. ágúst 2020 leiðir í ljós 7% aukningu á lífmassa makríls sem er mesti lífmassi sem mælst hefur síðan byrjað var að fara í leiðangurinn 2007.

Hafrannsóknarstofnun birti niðurstöður leiðangursins í gær.

72% minna af makríl við Ísland en í fyrra

Vísitala lífmassa makríls var metinn 12,3 milljónir tonna. Mestur þéttleiki mældist í miðju- og norðanverðu Noregshafi en 72% minna af makríl á hafsvæðinu við Ísland en í fyrra. 

Mestur var þéttleikinn suðaustan við landið, ólíkt undanförnum árum þegar mestur þéttleiki mældist sunnan og vestan við landið.

Útbreiðsla síldar svipuð og undanfarin ár

Magn norsk-íslenskrar síldar hækkaði einnig og var vísitala lífmassa metin 5,9 milljónir tonna sem er 24% hækkun frá fyrra ári. Auking skýrist af stórum 2016 árgangi sem er að öllum líkindum að stærstu leyti genginn nú úr Barentshafi inn í Noregshaf. Þessi árgangur ásamt þeim frá 2013, vógu um 55% af lífmassa stofnsins. Útbreiðsla síldarstofnsins var svipuð og undanfarin ár. Eldri hluti hans var í mestum þéttleika norður af Færeyjum, fyrir austan og norðan Íslands, en yngri síldin í norðaustur Noregshafi

Niðurstöðurnar eru, ásamt öðrum gögnum, notaðar við mat á stofnstærð makríls en ICES, Alþjóðahafrannsóknarráðið, mun birta ráðgjöf um aflamark Norsk-íslenskrar síldar, makríls og kolmunna þann 30. september.

Lífmassi Kolmunna mældist 1,8 milljón tonna sem er minnkun frá því í fyrra þegar 2 milljónir tonna mældust. Afar lítið af komunna fannst við Ísland og Grænland en mestur þéttleiki var í austur- og suðurhluta Noregshafs.

Yfirborðshiti um og yfir meðaltali

Austan, sunnan og vestan Íslands, sem og í Irmingerhafinu við Austur-Grænland var hitastig í yfirborðslögum sjávar ívið lægra nú en á sama tíma í fyrra, en kringum meðaltal síðustu 20 ára. Í meginhluta af Noregshafi var yfirborðshiti um og yfir meðaltali síðustu 20 ára sem þýðir lækkun í vestari hlutanum en hækkun í austari hlutanum í samanburði við síðasta ár.

Þá fundust 802 sjávarspendýr af tíu mismunandi tegundum, sem er aukning um 281 dýr frá því í fyrra þegar 521 dýr fannst. Í leiðangri 2018 voru þau 600 eða fleiri og 700 eða fleiri árið 2017.

Farið var á sex skipum og hafsvæði á 2,9 milljónum ferkílómetra kannaðar.