Svona klæðir þú þig eins og Gucci módel

Mynd með færslu
 Mynd: AP

Svona klæðir þú þig eins og Gucci módel

27.08.2020 - 11:31
Nýjar mynbandsáskoranir spretta upp á TikTok eins og gorkúlur og það getur verið erfitt að ná utan um það hvað nákvæmlega sé að trenda þessa stundina. Nýjasta æðið felst í því að klæða sig upp eins og Gucci módel og þar þarf að fylgja ákveðnum reglum.

Svo virðist vera sem notendur TikTok langi að verða hluti af næstu herferð tískuhússins Gucci en myndbönd af fólki að klæða sig eins og Gucci módel fara nú eins og eldur um sinu á forritinu. Myndbönd merkt #guccimodelchallenge eru komin með rúmlega átta milljónir áhorfa þegar þetta er skrifað . 

Myndböndin eru öll með upphaflegt hljóð frá leikkonunni Lachlan Watson, sem er þekktust fyrir hlutverk sitt í Netflix þáttaröðinni Chilling Adventures of Sabrina, upphaflegt myndband leikkonunnar er hins vegar ekki lengur aðgengilegt. Hljóðupptakan fer þó yfir það hvaða skrefum þarf að fylgja til að líta út eins og Gucci módel. Skrefin eru eftirfarandi:

 • 1. skref
  Rúllukragapeysa eða bolur, helst í skærum lit. 
 • 2. skref
  Víð skyrta sem passar engan veginn við rúllukragann. 
 • 3. skref
  Vesti yfir skyrtuna, það er mikilvægt að vera með mikið af lögum (e. layers).
Mynd með færslu
 Mynd: seannaltman - TikTok
Rúllukragi, skyrta og vesti.
 • 4. skref
  Litríkur, helst mjög skærlitur jakki yfir rúllukragann, skyrtuna og vestið. 
 • 5. skref
  Smelltu þér í litríkar buxur, gott ef þær eru úr plastefni eða útvíðar. 
 • 6. skref
  Ef þú átt pils, skelltu því þá yfir buxurnar. 
Mynd með færslu
 Mynd: seannaltman - TikTok
Skærlitur jakki, litríkar buxur og pils.
 • 6. skref
  Nauðsynjavara í öllum Gucci útlitum er slæða á höfuðið.
 • 7. skref
  Ekki gleyma sólgleraugunum.
 • 8. skref
  Háir hælar, helst þannig að sokkarnir sem þú ert í sjáist.
 • 9. skref
  Síðast en ekki síst er það svo bleikur varalitur.
Mynd með færslu
 Mynd: seannaltman - TikTok
Höfuðslæða, sólgleraugu, skór, sokkar og varalitur.

TikTok notendur hafa farið frjálslega með leiðbeiningarnar, liti, efni og stærð fatnaðarins sem þeir klæðast. Niðurstaðan er hins vegar alltaf sú sama, „lúkk“ sem gæti svo sannarlega átt heima á tískupalli hjá Gucci. Þeir geta svo bara vonað að Alessandro Michele, listrænn stjórnandi tískuhússins, sé virkur á TikTok og sé að leita að fyrirsætum í næstu herferð. 

Tengdar fréttir

Lúxusvörur ættu ekki bara að hanga í skápnum

Gucci er gellusegull

Menningarefni

Rómantíkin á undan lífinu á sýningu Gucci