Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Milljónir farandverkafólks búa við skelfilegar aðstæður

27.08.2020 - 17:00
Mynd: EPA / EPA
Kristján Bragason, framkvæmdastjóri samtaka launafólks í matvæla-, ferðaþjónustu og landbúnaði í Evrópu, segir að um fjórar milljónir farandverkamanna í landbúnaði búi við skelfilegar aðstæður og upplifi launaþjófnað. COVID-19 hefur beint athygli stjórnvalda víða í Evrópu að stöðu þessa fólks.

Saga George

George Mitache frétti af vinnu í Þýskalandi snemma í apríl og trúði varla sínum eigin eyrum. Vinur hans í næst þorpi var að leita að verkafólki til að tína jarðarber í nágrenni Bonn. Í boði voru laun sem hljómuðu vel, 5 til 6000 evrur í þrjá mánuði eða 815 til 978 þúsund krónur íslenskar. Flug og húsnæði átti að vera innifalið. Mitache býr með eiginkonu sinni, sem er barnshafandi, og dóttur í litlu þorpi í Austur-Rúmeníu. Þau búa við mjög lélegar aðstæður. Hann sló til og fór til Þýskalands. Hann sá fyrir sér að geta byggt nýtt hús. Eftir dvölina í Þýskalandi hugsar hann til hennar með hryllingi. Þetta kemur fram í grein sem blaðamenn Der Spiegel skrifuðu. Þeir reyndu ásamt blaðamönnum víðs vegar í Evrópu að varpa ljósi á stöðu farandverkamanna sem streyma árlega til Vestur- Evrópu til að tíma jarðarber, bláber, aspas, plómur og ferskjur sem síðan eru seldar á tiltölulega hagstæðu verði á stórmörkuðum Evrópu.

George og fleiri úr hans þorpi sem ákváðu að fara til Þýskalands var ekkert sérstaklega brugðið þegar þeir sáu húsakostinn sem þeim var boðið upp á. Gamall vinnuvélaskúr þar sem tíu sváfu saman í einu herbergi.

Við komuna var þeim gert að afhenda skilríki. Þeim hafi verið boðnar sjö evrur á tímann en lágmarkslaunin eru röskar níu evrur. Hins vegar kom í ljós að ekki var um tímalaun að ræða heldur þrjár evrur á hvert fat af jarðarberjum sem tók að minnsta kosti 45 mínútur að fylla. Yfirleitt unnu þeir tíu tíma á dag. 

Eftir tveggja vikna vinnu vildu Rúmenarnir fá að vita hve mikið þeir hefðu þénað. Þá var þeim sagt að enn væru þeir ekki einu sinni búnir að vinna fyrir  flugmiðanum. Ef þeir væru ekki sáttir gætu þeir bara farið.

Þeir báðu líka um samning viku seinna sem þeim hafði verið lofað. Þá var brugðist illa við og þeir hreinlega reknir. En áður voru þeir látnir skrifa undir eitthvað sem þeir höfðu ekki hugmynd um hvað var. Þeir stóðu uppi slippir og snauðir á götunni. Þeir komust reyndar aftur heim fyrir hjálp góðra manna. Bóndinn sem þeir unnu hjá segir að þeir hafi ákveðið að hætta sjálfir og skrifað undir afsögn.

epa08353507 Seasonal workers from Romania prepare for their departure flight towards Germany at the International Airport in Cluj Napoca, 500 Km north-west from Bucharest, Romania, 09 April 2020. Several charter aircrafts, carrying seasonal workers for the asparagus and strawberry harvest from Romania, were heading to Germany today. The German government had relaxed the entry ban for foreigners in this case, which applies because of the spread of the SARS-CoV-2 coronavirus, which causes Covid-19 disease.  EPA-EFE/MANASES SANDOR ROMANIA OUT
 Mynd: EPA
Verkafólk frá Rúmeníu á leið til Þýskalands

Mörg mál á dag

Kristján Bragason er framkvæmdastjóri EFFAT, sem eru heildarsamtök verkalýðsfélaga launafólks í matvæla-, landbúnaðar- og ferðaþjónustugeiranum í Evrópu. Hann segir að mál George sé eitt af fjölmörgum öðrum sem berist til samtakanna sem eru með aðsetur í Brussel.

  „Við fáum svona mál inn á okkar borð daglega. Mörg á dag meira að segja. Þýskaland er mikið í umræðunni þessa daganna en svona mál koma líka frá Frakklandi, Spáni, Norðurlöndunum og Belgíu og Hollandi.“

Ill meðferð á farandverkafólki sem flykkist til Vestur- Evrópu víðs vegar að úr heiminum er ekki nýtt vandamál. Kristján segir þessi mál hafi lengi verið á borði samtakanna.

„Hins vegar hefur COVID-19 í raun opnað augu stjórnmálamanna og fjölmiðla á þessu vandamáli, við höfum verið að reyna að benda þessum aðilum á þetta vandamál í langan tíma.“

-Hvers vegna varpar COVID-19 ljósi á aðstöðu þeirra?

„Það kom upp ákveðinn skortur á starfsfólki í byrjun faraldursins vegna takmarkana á ferðafrelsi. Það gerði það að verkum að bændur víðs vegar um Evrópu óskuðu eftir því að fá heimildir til að flytja inn starfsfólk. Þá fóru stjórnmálamenn að spyrja hvernig málum væri háttað hjá verkafólkinu og hvernig öryggi og heilbrigði þess væri tryggt. Þá fóru fjölmiðlar að fjalla um þetta líka og við höfum verið dugleg ásamt aðildarfélögum okkar að benda á vandamálin sem þessu fylgja.“

Mynd með færslu
 Mynd: Arnar Páll Hauksson
Kristján Bragason

Miljarðar til landbúnaðarins

Um 58 milljarðar evra eða um 9.500 miljarðar íslenskra króna renna til landbúnaðarins í ESB-löndunum í formi styrkja og niðurgreiðslna. Í skilmálum eða samningum um þessar greiðslur er ekkert að finna eða engin ákvæði um árstímabundið verkafólk; hvernig eigi að vernda þennan hóp og koma í veg fyrir það sem margir kalla nútímaþrælahald. Kristján segir að samtökin hafi bent á þetta. Hann segir að í skilmálum sé að finna skilyrði fyrir dýravernd, umhverfisvernd og fleira.

„En þegar kemur að því hvernig bændur sem fá þessa styrki meðhöndla sína starfsmenn eru engin skilyrði sett fyrir þessum greiðslum. Við höfum gert kröfur gagnvart Evrópusambandinu um að bændur eða fyrirtæki sem brjóta á starfsfólki sínu fái ekki þessa styrki eða þá að þeir verið takmarkaðir.“

Framkvæmdastjórn ESB gaf út leiðbeiningar í sumar um stöðu farandverkafólks. Það ætti að fá laun samkvæmt töxtum og ekki væri heimilt að mismuna þessum hópum eftir því hvaðan þeir koma. 

„Við teljum að þarna hafi verið stigið ákveðið skref til að bæta kjör farandverkafólks en því miður vantar mikið upp á að það verði gerð á lagalegan og bindandi hátt.“

En hefur Kristján hugmynd um hvað þetta eru margir farandverkamenn sem starfa árlega í landbúnaði og brotið er á?

„Við teljum að þetta séu um fjórar milljónir farandverkamanna á ársgrundvelli sem búa við skelfilegar aðstæður, hvað varðar húsnæðismál, launamál og réttindi. Fólk sem upplifir launaþjófnað, svarta atvinnustarfsemi og ólögleg störf,“ segir Kristján Bragason.