Saga George
George Mitache frétti af vinnu í Þýskalandi snemma í apríl og trúði varla sínum eigin eyrum. Vinur hans í næst þorpi var að leita að verkafólki til að tína jarðarber í nágrenni Bonn. Í boði voru laun sem hljómuðu vel, 5 til 6000 evrur í þrjá mánuði eða 815 til 978 þúsund krónur íslenskar. Flug og húsnæði átti að vera innifalið. Mitache býr með eiginkonu sinni, sem er barnshafandi, og dóttur í litlu þorpi í Austur-Rúmeníu. Þau búa við mjög lélegar aðstæður. Hann sló til og fór til Þýskalands. Hann sá fyrir sér að geta byggt nýtt hús. Eftir dvölina í Þýskalandi hugsar hann til hennar með hryllingi. Þetta kemur fram í grein sem blaðamenn Der Spiegel skrifuðu. Þeir reyndu ásamt blaðamönnum víðs vegar í Evrópu að varpa ljósi á stöðu farandverkamanna sem streyma árlega til Vestur- Evrópu til að tíma jarðarber, bláber, aspas, plómur og ferskjur sem síðan eru seldar á tiltölulega hagstæðu verði á stórmörkuðum Evrópu.
George og fleiri úr hans þorpi sem ákváðu að fara til Þýskalands var ekkert sérstaklega brugðið þegar þeir sáu húsakostinn sem þeim var boðið upp á. Gamall vinnuvélaskúr þar sem tíu sváfu saman í einu herbergi.
Við komuna var þeim gert að afhenda skilríki. Þeim hafi verið boðnar sjö evrur á tímann en lágmarkslaunin eru röskar níu evrur. Hins vegar kom í ljós að ekki var um tímalaun að ræða heldur þrjár evrur á hvert fat af jarðarberjum sem tók að minnsta kosti 45 mínútur að fylla. Yfirleitt unnu þeir tíu tíma á dag.
Eftir tveggja vikna vinnu vildu Rúmenarnir fá að vita hve mikið þeir hefðu þénað. Þá var þeim sagt að enn væru þeir ekki einu sinni búnir að vinna fyrir flugmiðanum. Ef þeir væru ekki sáttir gætu þeir bara farið.
Þeir báðu líka um samning viku seinna sem þeim hafði verið lofað. Þá var brugðist illa við og þeir hreinlega reknir. En áður voru þeir látnir skrifa undir eitthvað sem þeir höfðu ekki hugmynd um hvað var. Þeir stóðu uppi slippir og snauðir á götunni. Þeir komust reyndar aftur heim fyrir hjálp góðra manna. Bóndinn sem þeir unnu hjá segir að þeir hafi ákveðið að hætta sjálfir og skrifað undir afsögn.