Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Hlýtur þyngsta dóm í nýsjálenskri réttarsögu

27.08.2020 - 02:27
Mynd: EPA-EFE / AAP POOL
Ástralinn Brenton Tarrant var dæmdur í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn í morgun. Tarrant myrti 51 í skotárás á tvær moskur í Christchurch í Nýja-Sjálandi í mars í fyrra. Dómari sagði Tarrand vart mennskan og dómstólar verði að taka hart á þeim sem fremja voðaverk af þessu tagi. Dómurinn er sá þyngsti í nýsjálenskri réttarsögu, og á sér engin fordæmi.

Tarrant hafði áður játað á sig 51 ákæru fyrir morð, fjörutíu morðtilraunir og eina ákæru fyrir hryðjuverk. Hann sat þögull þegar dómurinn yfir honum var kveðinn. Verjandi hans las upp yfirlýsingu, þar sem hann sagði Tarrant ekki ætla að mótmæla lífstíðardómnum.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, tjáði sig um dóminn í morgun. Hún sagði Tarrant verðskulda lífstíðardóm í algjörri þögn. Það verði alltaf erfitt að láta sárin frá 15. mars í fyrra gróa, „en ég vona að dagurinn í dag verði sá síðasti sem við þurfum að heyra eða segja nafn hryðjuverkamannsins á bak við voðaverkin,“ sagði Ardern.