Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

BSÍ verður lokað eftir helgi

Mynd: RÚV / Skjáskot
Björn Ragnarsson framkvæmdastjóri Kynnisferða segist vonast til að minnisblað ferðamálaráðherra, þar sem fram kemur að huga verði að sértækum mótvægisaðgerðum í þágu ferðaþjónustunnar, verði til þess að gripið verði til aðgerða til að rétta hlut hennar.

Í minnisblaðinu eru hópferðafyrirtæki sérstaklega tilgreind meðal þeirra fyrirtækja sem ekki nutu góðs af tímabundnum slökunum á landamæraskimunum í sumar.

„En vissulega kemur þetta svolítið seint . Skaðinn er skeður, við erum að sjá gríðarlegar afbókanir frá ferðamönnum og viðskiptavinum og náttúrulega gríðarleg fækkun á ferðamönnum,“ segir Björn.

„Við sáum það í vor að sóttvarnalæknir talaði um að það væru miklu minni líkur á smitum frá ferðamönnum. Við höfum séð að smit frá ferðamönnum hafa verið sárafá og við hefðum viljað sjá aðrar reglur gagnvart ferðamönnum.“

Hann segir að Umferðarmiðstöðinni, BSÍ, sem er í eigu Kynnisferða verði lokað eftir helgi. „Hún  hefur verið opið nánast á hverjum degi frá 1965. Hér eru nánast engir viðskiptavinir. Þannig að þessi ferðamannabissness er bara búinn í bili. Því miður.“

Er þetta varanleg lokun? „Auðvitað vonumst við til þess að stjórnvöld opni aftur og við sjáum ferðamenn koma aftur til landsins.“

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Magnús Geir Eyjólfsson